Heiðursmerki fyrir framgöngu í verkfalli Baldurs 1926 !
Sigurður Bjarnason verkamaður fékk á sínum tíma afhent heiðursmerki fyrir framgöngu sína í verkfallsátökum Baldurs á Ísafirði árið 1926. Sigurður var fæddur 1893 og lést árið 1971. Eftir verkfallið 1926 og átökin sem þá urðu á Edinborgarbryggju fékk hann viðurnefnið Sýrafellir.
Sigurjón Ámundason, einn af afkomendum Sigurðar Bjarnasonar, var nýlega staddur hér vestra ásamt eiginkonu sinni á fermingarbarnamóti. Af því tilefni afhenti hann Verkalýðsfélagi Vestfirðinga að gjöf heiðurspening þann sem Sigurður Bjarnason hlaut frá verkalýðsfélaginu Baldri árið 1926. Orðan er silfurpeningur sem á er grafið með skrautletri „ S. B. Syrafellir 9-2. 1926 ". (Á bakhliðinni er mynd af Kristjáni IX. Danakonungi). Sigurjón Ámundason hefur útbúið smekklega gert tréspjald sem heiðurspeningurinn er festur á, ásamt málmplötu þar sem tilefnið og gjöfin kemur fram.
Pétur Sigurðsson fyrrverandi formaður Baldurs og Verkalýðsfélags Vestfirðinga tók við gjöfinni á skrifstofu félagsins nú í júní. Verkalýðsfélag Vestfirðinga þakkar Sigurjóni Ámundasyni fyrir að færa félaginu heiðurspening Sigurðar Bjarnasonar, sem fær nú veglegan sess á skrifstofu félagsins og í sögu þess. Þannig mun minningin um vasklega framgöngu Sigurðar „Sýrafellis" fyrir baráttu ísfirsks verkalýðs ekki gleymast. Sigurður Pétursson sagnfræðingur hefur tekið saman frásögn af verkfallsátökunum 1926 sem má sjá hér.