Translate to

Fréttir

Heilbrigðisráðherra fundar með verkalýðshreifingunni

mynd: VB mynd: VB

Í samstarfi við BSRB og Starfsgreinasamband Íslands, SGS, boðaði Ögmundur Jónasson, heilbrigðisráðherra, til fundar með trúnaðarmönnum verkalýðsfélaga innan heilbrigðisþjónustunnar þann 6. apríl sl.  Fundarefni var staða mála og framtíðarhorfur í heilbrigðisþjónustu. Fundurinn var fjölmennur og vel sóttur af félögum af landsbyggðinni og var sérstaklega ánægjulegt að sjá hve vel var mætt frá SGS félögum.  Að lokinni framsögu ráðherra var opnað fyrir umræður sem voru nokkuð líflegar.

 

Fram kom í máli ráðherra að hann vildi eiga gott samstarf og samráð við starfsfólk stofnana um framtíð starfa innan heilbrigðisþjónustunnar. Ráðherra var í því sambandi minntur á að hann þyrfti að eiga gott samráð við fjármálaráðherra, það væri jú við hann sem stéttarfélögin þyrftu að gera kjarasamninga vegna starfsfólks á heilbrigðisstofnunum.

 

Þá kom ráðherra einnig inn á að sjaldan eða aldrei hafi verið mikilvægara að standa vörð um heilbrigðisþjónustuna og hvatti til samstöðu allra sem innan hennar vinna. Einnig kom fram í máli ráðherra að útilokað væri annað en sá 6,7 milljarða niðurskurður sem hefði verið boðaður til heilbrigðismála kæmi niður á þjónustu við sjúklinga. Einnig minnti hann á að 10% boðaðann niðurskurð á næsta fjárlagaári.

 

Ráðherra kom vandlega inn á að niðurskurðurinn ætti að byrja ofan frá en ekki á gólfinu. Hann var minntur á að niðurskurður næði sjaldnast uppfyrir gólflistana, og var þar verið að benda á að oftast væri byrjað að spara í ræstingunni og í láglaunastörfunum. Ráðherra svaraði því til að sérstökum tilmælum hefði verið beint til stjórnenda stofnana að skera frekar niður hjá hærra launuðum. Fulltrúar Verk Vest á fundinum voru Finnbogi Sveinbjörnsson formaður og Kristín Sigmundsdóttir trúnaðarmaður á Heilbrigðisstofnuninni á Hólmavík.
Deila