Translate to

Fréttir

Hlutastörf og hlutabætur

Að tilstuðlan félags- og tryggingamálaráðherra, ASÍ og SA hafa verið gerðar breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóð launa sem er ætlað að koma til móts við breyttar aðstæður á vinnumarkaði og þá áherslu sem lögð hefur verið á mikilvægi þess að sem flestir geti verið virkir þátttakendur á vinnumarkaði að einhverju leyti, sjálfum sér og samfélaginu til hagsbóta. Á sama tíma og þessar tillögur eru til þess fallnar að draga úr aukningu á atvinnuleysi, þá er þeim ætlað að koma betur til móts við aðstæður launafólks sem þarf að taka á sig kjaraskerðingu í formi minnkaðs starfshlutfalls vegna tímabundins rekstrarvanda fyrirtækis þess er það starfar hjá. Lögin voru afgreidd á alþingi í gær. 

Á heimasíðu SGS er hægt að nálgast frekari upplýsingar um hvað þessar breytingar gætu haft í för með sér fyrir þá sem hafa orðið fyrir skertu vinnuhlutfalli. Þar eru einnig tekin nokkur dæmi um hvaða forsemdur eru lagðar til útreikninga á hlutabótum.  Á vef ASÍ er einnig er hægt að nálgast upplýsingar um þessar breytingar sem og lögin sjálf.

Þetta er mjög mikilvægt skref í áttina að því að koma á móts við þá sem verða fyrir skerðingu á starfshlutfalli. Rétt að vara launafólk við því að taka ekki á sig tekjuskerðingu í formi launalækkunar þegar ekki kemur til skert starfshlutfall. Með því að taka þátt í þannig samkomulagi þá skerðir viðkomandi rétt sinn á hlutabótum frá atvinnuleysistryggingasjóði. Þeir sem eru í forsvari hjá fyrirtæki sem ætlunin er að skerða starfshlutfall, verða að sækja um hlutabæturnar fyrir sitt starfsfólk, þannig verði tryggt að allir sem starfa hjá því fyrirtæki fái réttar bætur.

Deila