Hlúum að því sem fyrir er !
Mikið hefur verið rætt um hvernig eigi að bjarga atvinnulífinu á Flateyri. Kastað hefur verið fram í umræðuna upphrópunum um að margir hafi sýnt því áhuga að hefja vinnslu á nýjan leik. Við þessar aðstæður er þetta ekki það sem fólk sem hefur misst atvinnuna þarf að heyra. Fólkið vill staðreyndir og raunveruleika, hvað blasir við og hvernig það geti framfleytt sér og sínum við breyttar aðstæður. Þetta kom fram á fundi sem haldinn var með fyrrverandi starfsmönnum Eyrarodda hf. í Félagsbæ á Flateyri í gær. Fjárhagsleg aðstoð Verkalýðsfélags Vestfirðinga hrekkur skammt og atvinnuleysis-bætur koma ekki fyrr en í byrjun mars. Nei þetta dugir ekki til, hér þurfa að koma til bráðaaðgerðir, aðgerðir sem felast í því að hlúa að því sem fyrir er, bæði mannlífi og atvinnulífi.
Leggjast verður að fullum þunga gegn lokun Sólborgar og tryggja með því þau störf sem þar eru. Íbúasamtök Flateyrar hafa upplýst að ekki þurfi nema fjóra vistmenn til að reksturinn stanndi á núlli miðað við núverandi aðstæður. Fyrrverandi ráðherra heilbrigðismála heimilaði áframhaldandi starfsemi Sólborgar með þeim takmörkunum að ekki mætti taka við fleiri vistmönnum, þessu þarf að breyta. Hvetja verður til flutnings heilsárs starfa hingað vestur, má í því samhengi nefna störf hjá Ríkisskattsstjóra og Vinnumálastofnun. Þar er ég fyrst og fremst að horfa til úrvinnslustarfa sem auðvelt er að vinna annarsstaðar en á höfuðborgarsvæðinu. Báðar þessar stofnanir hafa gert ákall um aukningu á starfsem og ekki er vanþörf á.
Þá komum við að því sem mestu máli skiptir að styðja við veiðar og vinnslu, hvernig ætlum við að gera það ? Viljum við fá inn einhverja ævintýramenn sem skilja eftir sig slóð skulda, löskuð og jafnvel gjaldþrota þjónustufyrirtæki ? Ég segi nei, hleypum þeim ekki að. Hlúum að því sem fyrir er.
Á Flateyri er dugnaðarfólk í útgerð og vinnslu, þessu athafnafólki þarf að hlúa að. Á Suðureyri eru tvö öflug sjávarútvegsfyrirtæki, Íslandssaga og Klofningur. Þessi tvö fyrirtæki skapa á annað hundrað manns atvinnu á starfsstöðvum sínum víðsvegar á Vestfjörðum, þrátt fyrir að þungamiðja þeirra sé vinnsla fyrirtækjanna á Suðureyri. Þessum fyrirtækjum þurfum við að hlúa að. Ég sé fyrir mér að athafnafólk í veiðum og vinnslu á Flateyri ásamt forvígismönnum Íslandssögu og Klofnings á Suðureyri koma að þessu verkefni. Við það eiga bæjaryfirvöld á Ísafirði að styðja við og hvetja til samstarfs með það að leiðarljósi að koma af stað vinnslu á Flateyri.
Okkur ber skylda til að leita leiða til að samfélagið hérna fyrir vestan geti nýtt gullkistuna sem hafið er. Virðisaukann ætti síðan að nýta til endurreysnar fiskvinnslu og útgerðar á Flateyri. Þannig væri komin af stað bráðaaðgerð sem gæti mögulega nýst atvinnulífi á Flateyri og Suðureyri til lengri tíma.
Finnbogi Sveinbjörnsson,
formaður Verk Vest