Translate to

Fréttir

Höggvið á hnútinn og það strax !

Fundur starfsfólks Eyrarodda Fundur starfsfólks Eyrarodda

Stjórnarfundur Verkalýðsfélags Vestfirðinga haldinn 4. ágúst 2011, hvetur Byggðastofnun, Landsbanka Íslands og skiptastjóra þrotabús Eyrarodda til að höggva á hnút óvissu í atvinnumálum Flateyringa. Algjört neyðarástand hefur ríkt á meðan áðurnefndir aðilar hafa dregið lappirnar og þvælst hver fyrir öðrum í ákvarðanatökum með þeim afleiðingum að fiskvinnsla er nánast að leggjast af á Flateyri. Þeirri hvatningu er beint til valdhafa ásamt pengingaöflum og skiptaráðanda að sýna áræðini og stórhug í ákvarðanatöku um framtíð fiskvinnslu á Flateyri.

Hætta er á að algjör fólks flótti bresti á verði ekki gripið til bráðaaðgerða svo hægt verði að hefja vinnslu á Flateyri að nýju. Neyðarkalli heimamanna frá því í vetur hefur enn ekki verið svarað þannig að hægt sé að byggja á til framtíðar. Stjórnarfundurinn fordæmir þau vinnubrögð sem áðurnefndir aðilar hafa viðhaft og skorar á Byggðastofnun, Landsbankann og skiptaráðanda sem hafa atvinnulíf Flateyringa í heljargreipum, að hætta að benda hver á annan og höggva á hnútinn, og það strax.

Deila