Translate to

Fréttir

Húsaleigubætur - sveitarfélög hvött til hækkunar

Oft er þörf, en nú er nauðsyn Oft er þörf, en nú er nauðsyn

 

Verkalýðsfélag Vestfirðinga hvetur sveitarfélög á Vestfjörðum til að hækka húsaleigubætur í samræmi við reglugerð sem Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra undirritaði 7. apríl sl.  Húsaleigubætur hafa ekki verið hækkaðar síðan árið 2000, en í nýgerðum kjarasamningum var hækkun húsaleigubóta og sérstakra húsaleigubóta hluti af ríkisstjórnarpakkanum.

 

Samkvæmt nýju reglugerðinni hækka grunnhúsaleigubætur úr 8.000 krónum  í  13.500 krónur. Þá hækka bætur vegna fyrsta barns úr 7000 krónum í 14.000 og vegna annars barns úr 6.000 krónum í 8.500 krónur. Hæstar geta bæturnar því orðið 46.000 krónur en voru áður 31.000 krónur að hámarki.  Þá er einnig samkomulag við Samband íslenskra sveitarfélaga um hækkun húsaleigubóta, en í samkomulaginu er kveðið á um þátttöku ríkisins í greiðslu sérstakra húsaleigubóta. Hlutur ríkisins í sérstökum húsaleigubótum er talin verða  um 60 milljónir og sveitarfélaga um 40 milljónir með þessari reglugerðarbreytingu.

 

Með því að sveitarfélög komi þannig á móts við íbúa sína geta hámarksgreiðslur almennra og sérstakra húsaleigubóta orðið 70.000 krónur í stað 50.000 króna áður. Þess má geta að ríkissjóður kemur nú í fyrsta sinn að greiðslu sérstakra húsaleigubóta, því er það enn brýnna að vestfirsk sveitarfélög nýti sér þennan möguleika til hækkunar bóta og létti þannig róður margra heimila í fjórðungnum.

Deila