Hvert atkvæði skiptir máli!
Nýjir kjarasamningar Starfsgreinasambands Íslands og Landssambands íslenskra verzlunarmanna við Samtök atvinnulífsins voru undirritaðir 3. apríl og fengu nafnið Lífskjarasamningar. Aðgerðarpakkinn sem ríkisstjórnin kom með að borðinu á loka metrunum reyndist lykillinn að því að hægt var að ljúka við gerð nýrra kjarasamninga.
Við sem tókum þátt í að móta samningana teljum þá munu koma lægst launaða hópnum á vinnumarkaði best. Enda var lögð sérstök áhersla á að bæta hag ungs fólks og tekjulágra. Sömuleiðis er samið um fastar krónutöluhækkanir og þannig hlutfallslega meira fyrir þá sem eru á taxtalaunum.
Fleiri baráttumál verkalýðshreyfingarinnar komu inn í samingana, svo sem stytting vinnuvikunnar, aðgerðir í húsnæðismálum, lágtekjuþrep í skattkerfinu, lengingu fæðingarorlofs og aðgerðir til afnáms verðtryggingar. Samningarnir eiga líka að skapa góð skilyrði til vaxtalækkana og hagvaxtaaukningar sem skilar sér að lokum í auknum kaupmætti til allra.
Sjaldan eða aldrei hafa fleiri félagsmenn í Verk Vest tekið þátt í að móta kröfugerð félagsins. En á sjöunda hundrað félagsmanna Verk Vest kom með einum eða öðrum hætti að mótun kröfugerðar félagsins. Nú er komið að síðasta skrefinu, sem er að taka þátt í atkvæðagreiðslu um kjarasamningana. Aðeins með þeim hætti geta félagsmenn sagt sitt álit á samningunum. Það eru félagsmenn Verk Vest sem eiga síðasta orðið í þessum efnum.
Rétt er að benda á að ekki er búið að semja fyrir félagsmenn okkar sem starfa á bændabýlum, hjá ríkisstofnunum, sveitarfélögum og við beitningu. Þá er einnig ósamið hjá iðnaðarmönnum og fyrir starfsfólk Þörungaverksmiðjunnar á Reykhólum.
Eingöngu þeir félagsmenn í Verk Vest sem starfa eftir samningum SGS á almenna markaðnum sem og verslunar- og skrifstofufólk eiga taka þátt í atkvæðagreiðslunni.
Rafræn atkvæðagreiðsla fer fram á www.verkvest.is og hefst kl.13:00 þann 12. apríl og lýkur klukkan 16:00 þann 23. apríl.
Stöndum saman og tökum þátt í atkvæðagreiðslunni. Hvert atkvæði skiptir máli!
Baráttukveðjur,
Finnbogi Sveinbjörnsson, formaður Verkalýðsfélags Vestfirðinga.