Innlegg ríkisstjórnarinnar til kjaraviðræðna - aukin verðbólga!
Miðstjórn ASÍ hefur sent frá sér eftirfarandi ályktun vegna aðkomu ríkisstjórnarinnar að kjaraviðræðum.
Í haust fór verkalýðshreyfingin fram á það við ríki og sveitarfélög að hætt yrði við gjaldskrárhækkanir um áramót til að skapa stöðugleika á grunni lágrar verðbólgu. Reykjavíkurborg fór á undan með góðu fordæmi og dró fyrirhugaðar hækkanir til baka og það sama hefur fjöldi annarra sveitarfélaga gert. Fjármálaráðherra tók þessari beiðni fálega í síðasta mánuði og nú hefur meirihluti efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis sent frá sér „rökstuðning“ fyrir því að vera ekki samferða í vegferð gegn verðbólgunni. Meirihlutinn telur í stuttu máli affærasælast fyrir íslenska þjóð að álögur á almenning hækki jafnt og þétt, annað geti boðið hættunni heim.
Nú hafa greiningaraðilar og Seðlabankinn gert grein fyrir því mati sínu að boðaðar aðgerðir ríkisstjórnarinnar í skuldamálum heimilanna muni að öllum líkindum leiða til veikara gengis krónunnar og aukins verðbólguþrýstings. Það kallar aftur á vaxtahækkanir Seðlabankans.
Framlag ríkisstjórnarinnar til þeirrar kjaradeilu sem nú er í hnút er því ekki bara aukin verðbólga heldur eyðileggur hún þá samstöðu sem þegar hafði skapast meðal fjölda sveitarfélaga landsins um að hækka ekki gjaldskrár sínar.