Translate to

Fréttir

Jöfnum kjörin - samfélag fyrir alla !

Í eldhúsinu hjá Iðunni á 1. maí - kvennadeild Björgunarfélagsins Í eldhúsinu hjá Iðunni á 1. maí - kvennadeild Björgunarfélagsins

Til hamingju með baráttudag launafólks!

Á baráttudegi launafóks 1. maí er nauðsynlegt að velta fyrir sér hvernig samfélag viljum við byggja til framtíðar. Viljum við byggja samfélag sem er stýrt af gróðasjónamiðum, einstaklingshyggju og ójöfnuði? eða viljum við byggja samfélag þar sem allir njóta réttlátrar og sanngjarnar skiftingar af verðmætasköpun þjóðarbúsins?

Kröfur verkalýðshreyfingarinnar endurspegla kjarasamning eftir kjarasamning það óréttlæti sem hefur náð að læsa sig eins og illkynja æxli um íslenskt samfélag. Ójöfnuður hefur aukist sem aldrei fyrr og sífellt fleiri hópar sitja eftir í samfélagi sem hefur alla burði til að gera betur.

Þúsundir barna á Íslandi alast upp við fátækt, staða kvenna og einstæðra karla í láglaunastörfum er miklu meira en þröng, hún er örvænting. Fjöldi starfsfólks af erlendu bergi sem hefur leitað hingað í von um betra líf býr oft á tíðum við hörmulegar aðstæður þar sem launaþjófnaður er stundaður og hópur aldraðra og öryrkja nær ekki endum saman.

Sjálfur þekki ég af eigin raun hvernig það er að reka heimili með fjórum börnum þar sem báðir foreldrarnir unnu láglauna störf og þurftu að sækja í alla aukavinnu sem var í boði til að ná endum saman.

Ég þekki af eigin raun hvernig er að vera með fjögur börn á grunnskólaaldri á sama tíma og þurfa reka fjölskyldu á þannig launum að ekki var hægt að veita mínum börnum sömu tækifæri til tómstunda og börnum betur launaðra.

Ég þekki líka af eigin raun hvernig er að reyna koma þaki yfir fjölskylduna og þurfa taka dýrustu lán í boði þar sem greiðslugetan bauð ekki upp á annað. Það er dýrt að vera fátækur og það felst enginn jöfnuður í að láglaunafólk skuli markvisst vera boðið upp á afarkosti í húsnæðismálum.

Slík staða er alls ekki ásættanleg í einu ríkasta landi heims. Við viljum samfélag þar sem fólk getur lifað með reisn, þar sem öll börn hafa sömu tækifæri, þar sem fullvinnandi fólk þarf ekki að hokra í fátækt.

Því miður hefur staða láglaunafólks á Íslandi lítið breyst og enn mun verkafólk þurfa vinna mikla yfirvinnu til að ná endum saman.

Ein af grundvallarkröfum verkalýðshreifingarinnar hefur í gegnum tíðina verið að launafólk geti lifað af dagvinnulaunum í stað þess að ganga sér til húðar með óhóflegri aukavinnu til að framfleyta sér og sínum.

Langur vinnudagur, mikið álag og lítill sem enginn frítími með fjölskyldunni er smánarblettur á íslenskum vinnumarkaði. Íslenskt verkafólk á nánast ekkert líf utan vinnustaðarins. Lífskjarasamningum aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda er ætlað að snúa dæminu við og gera verkafólki kleift að lifa af dagvinnulaunum.

Hvernig má það vera í samfélagi sem kennir sig við velferð og jöfn tækifæri að skattbyrði þeirra tekjulægstu hefur verið þyngd á meðan skattar þeirra tekjuhæstu lækka. Niðurstaða kjaraviðræðna verkalýðshreyfingarinnar liðinn vetur er tilraun til að laga þetta óréttlæti. Það er nefnilega nóg til fyrir alla.

Jöfnum kjörin í okkar gjöfula landi og búum þannig til réttlátt samfélag fyrir okkur öll.

Verkalýðfélag Vestfirðinga óskar launafólki til hamingju með daginn og hvetur til samstöðu í kröfugöngum stéttarfélaganna 1. maí.

Finnbogi Sveinbjörnsson, formaður Verkalýðsfélags Vestfirðinga.

Deila