Jólaglaðningur eldra félagsfólks í Verk Vest
Nú sem og endranær færir Sjúkrasjóður Verkalýðsfélags Vestfirðinga félagsfólki sem hefur lokið starfsævinni Jólaglaðning ásamt fallegu korti frá félagssvæðinu. Á árinu 2018 varð sú breyting á myndefninu að sjóðsstjórnin óskaði eftir því við elsta félagsfólk Verk Vest að að sitja fyrir á myndum sem prýða Jólakort félagsins. Lögð hefur verið áhersla á að finna elstu hjón eða sambúðarfólk sem bæði eru félagsfólk eða eins og í ár elsta félagsmanninn. Okkar félagsfólk hefur ávalt brugðist vel við og afraksturinn verður að persónulegri og fallegri Jólakveðju til félagsmanna. Í samstarfi með okkur hefur verið myndasmiðurinn Ágúst Atlason, eða Gústi ljósmyndari, sem hefur fundið viðeigandi stund og stað hverju sinni með félagsfólki Verk Vest.
Í ár prýðir elsti félagsmaður Verk Vest, Karl Sigurðsson, Jólakortið. En jafnframt því að vera elsti félagsmaður Verk Vest er Kalli elsti íbúi Vestfjarða og elsti karlmaður á Íslandi en hann varð 104 ára 14. maí 2022. Karl var skipstjóri í Hnífsdal, lengst á Mími og stundaði sjómennsku fram undir fimmtugt. Síðan var Kalli vélstjóri í Hraðfrystihúsinu í Hnífsdal til 78 ára aldurs.
Í meðfylgjandi myndasafni má sjá félagsfólk Verk Vest sem hefur prýtt Jólakort félagsins frá árinu 2018.
2018 Magnús Arnórsson og Friðgerður Hallgrímsdóttir
2019 Bjarni Einarsson og Sylvía Ólafsdóttir
2020 Gunnar Veturliðason og Valdís Friðriksdóttir
2021 Lárus Helgi Hagalínsson og Dóra Kolbrún Ásgrímsdóttir
2022 Karl Sigurðsson elsti félagsmaður Verk Vest