Translate to

Fréttir

Karvel Pálmason látinn

Karvel Pálmason fyrrverandi alþingismaður og formaður Verkalýðs- og sjómannafélags Bolungarvíkur lést þann 23. febrúar s.l. Karvel var fæddur í Bolungarvík 13. júlí 1936, sonur Pálma Karvelssonar sjómanns og Jónínu Jóelsdóttur. Að loknu námi við unglingaskólann í Bolungarvík stundaði Karvel sjómennsku og verkamannavinnu í Bolungarvík til 1962 að hann gerðist lögregluþjónn. Því starfi gegndi hann ásamt kennslu við barna- og unglingaskólann í Bolungarvík til 1971, þegar hann var kjörinn á þing. Karvel sat í hreppsnefnd Hólshrepps frá 1962-1970.
Karvel Pálmason var fyrst kosinn á Alþingi fyrir Frjálslynda og vinstri menn, flokk Hannibals Valdimarssonar, árið 1971 og sat á þingi fyrir Vestfjarðakjördæmi allt til ársins 1991, að árinu 1978-1979 undanskildu. Frá 1979 sat hann á þingi fyrir Alþýðuflokkinn.
Karvel var formaður Verkalýðs- og sjómannafélags Bolungarvíkur frá árinu 1958 um langt árabil og varaforseti Alþýðusambands Vestfjarða frá 1975 til 1990. Hann átti ennfremur sæti í miðstjórn Alþýðusambands Íslands og var um tíma varaformaður Verkamannasambands Íslands.

Eftirlifandi eiginkona Karvels er Martha Kristín Sveinbjörnsdóttir. Þau eignuðust fjögur börn.

Verkalýðsfélag Vestfirðinga sendir fjölskyldu Karvels samúðarkveðjur og þakkar langa samfylgd á vettvangi verkalýðshreyfingar og félagsmála.

Karvel verður jarðsunginn frá Hólskirkju í Bolungarvík á morgun.

Deila