Kennitöluflakk kostar okkur tugi miljarða á hverju ári
Alþýðusamband Íslands gaf nýlega út skýrslu um kennutöluflakk og það tjón sem íslenskt samfélag verður fyrir vegna þess. Í sinni einföldustu mynd má lýsa kennitöluflakki sem skipulagðri aðgerð einstaklinga þar sem verðmæti eru tekin út úr einu félagi (hf./ehf.) og sett í annað félag en skuldir og aðrar skuldbindingar skildar eftir og félagið síðan sett í þrot. Mörg dæmi eru um keðju slíkra gjörninga vegna sama rekstursins þar sem sömu einstaklingar eru í forsvari. Fullyrða má að þetta athæfi kosti íslenskt samfélag tugi milljarða króna á ári.
Árið 2012 voru á Íslandi skráð 31 þúsund fyrirtæki með takmarkaða ábyrgð og fer þeim fjölgandi. Slíkt þýðir að þær skuldbindingar sem gerðar eru í nafni félagsins eru á ábyrgð þess, ekki eigendanna. Dæmi eru um að einn og sami einstaklingurinn hafi farið með 29 félög í gjaldþrot á sjö ára tímabili.
Samfélagslegt tjón
- Starfsmenn sem eiga útistandandi launakröfur á hin gjaldþrota félög auk þess að tapa starfi sínu og margvíslegum réttindum.
- Fyrirtæki í hliðstæðum rekstri, og starfsmenn þeirra, sem standa skil á sínu en búa við skekkta samkeppnisstöðu vegna þeirra sem hafa rangt við.
- Sameiginlega sjóði landsmanna sem verða af tekjum sem skipta a.m.k. tugum milljarða á hverju ári. Tekjum sem nýta mætti til að bæta t.d. heilbrigðis-, velferðar- og menntakerfi.
Nauðsynlegar aðgerðir
- Strangari reglur um hæfi einstaklinga til að vera í forsvari fyrir félög með takmarkaða ábyrgð.
- Skattalagabrot leiða til missis hæfis á sama hátt og dómur fyrir refsiverðan verknað gerir nú.
- Krafa um aukið hlutafé við stofnun félags með takmarkaða ábyrgð og tryggt að það sé greitt.
- Takmörk verði sett á nafnabreytingar félaga með takmarkaða ábyrgð.
- Girt verði fyrir heimildir aðila sem eru tengdir félögum með takmarkaða ábyrgð til að taka fé út úr félaginu með lánum eða öðrum hætti.
- Heimild fengin til að sekta forsvarsmenn félaga sem standa ekki skil á ársreikningi.