Translate to

Fréttir

Kjaradeilan til ríkissáttasemjara

Starfsgreinasambandið og Flóafélögin vísuðu kjaradeilunni til ríkissáttasemjara í dag. Kröfurnar eru skýrar. Fundur er boðaður með aðilum n.k. mánudag.


Eins og fram hefur komið lagði verkalýðshreyfingin fram tillögu að þríhliða sátt aðila vinnumarkaðarins og ríkisins til lausnar kjaradeilunnar sem nú stendur. Markmið tillagna ASÍ var annars vegar að draga úr óvissu í atvinnulífinu og auka  möguleika á stöðugleika og hins vegar að bæta kjör þeirra sem lægstar hafa tekjur umfram aðra.  Aðkoma ríkisstjórnarinnar, einkum varðandi skattbyrði þeirra tekjulægri, var lykilatriði. Því miður hafnaði ríkisstjórnin tillögum um sérstakan persónuafslátt, 20.000 kr. til þeirra tekjulægstu, sem auk tillagna um lagfæringar á barnabótakerfinu væru líklegast skilvirkustu og bestu kjarabætur fyrir tekjulága og barnafólk.

Það sem verra var, ríkisstjórnin virðist ekki vilja gera neitt sértakt fyrir þennan hóp, sem sannanlega hefur setið eftir í góðærinu, heldur lagði áherslu á skattatillögur sem gagnast öllum jafnt, líka hátekjuhópum. M.ö.o. ríkisstjórnin glutrar niður tækifæri til að stuðla að mikilvægri sátt í erfiðri kjaradeilu og skynsamlegri niðurstöðu deilunnar. Það kom einnig á óvart að Samtök atvinnulífsins studdu og styðja sjónarmið embættismanna ríkisstjórnarinnar, sem höfðu með málið að gera.


Fyrir Starfsgreinasambandið er ekki annað að gera en herða róðurinn gegn atvinnurekendum.

Deila