Kjarasamningar hjá Verk Vest samþykktir
Talning atkvæða í póstatkvæðagreiðslu Verk Vest vegna kjarasamninga félagsins hófst kl. 17:00 í gær, en þá rann út frestur til að skila inn atkvæðum. Á kjörskrá hjá Verk Vest voru alls 1283 og greiddu 340 atkvæði eða 27% sem er þó nokkuð minni kjörsókn en hefur tíðkast hjá félaginu að undanförnu, en þykir samt nokkuð góð kjörsókn á landsvísu. Í póstakvæðagreiðslu er það einfaldur meirihluti greiddra atkvæða sem ræður úrslitum.
Hjá félaginu var verið að kjósa um þrjá aðalkjarasamninga, hjá Starfsgreinasambandi Íslands (SGS ), Landssambandi Verslunarmanna ( LÍV ) og Sambandi iðnfélaga ( Samiðn ). Hjá SGS voru 984 á kjörskrá, alls greiddu 244 atkvæði eða 25%. Já sögðu 126 eða 52%. Nei sögðu 115 eða 47%. Auðir og ógildir seðlar voru 3. Samningur Verk Vest vegna þeirra sem vinna eftir kjarasamningi SGS telst því samþykktur. Hjá LÍV voru 294 á kjörskrá, alls greiddu 95 atkvæði eða 33%. Já sögðu 60 eða 63%. Nei sögðu 35 eða 37%. Engir seðlar voru auðir eða ógildir. Samningur Verk Vest vegna þeirra sem vinna eftir kjarasamningi LÍV telst því samþykktur. Hjá Samiðn voru 5 á kjörskrá og greiddi einungis einn atkvæði um samninginn og var hann samþykktur.
Niðurstaða í póstatkvæðagreiðslu hjá félaginu er sú að nýir kjarasamningar á almennum vinnumarkaði hjá Verk Vest taka gildi frá 1. janúar 2014 og eiga laun að taka hækkunum frá þeim tíma. Nýjar kaupsgjaldsskrár verða settar hér inn á vefinn við fyrsta tækifæri. Félagsmönnum er einnig bent á að ítarlegt kynningarefni sem fylgdi með útsendum kjörgögnum en þar má finna helstu breytingar á launatöflum.