"Krefjumst aðgerða gegn atvinnuleysinu" - ályktun SGS
Á fundi Starfsgreinasambands Íslands voru til umfjöllunar meðal annarra mála þau fjárfestingarverkefni sem ríkisstjórnin hafði lofað við gerð stöðugleikasáttmálans. Þetta eru fjárfestingaverkefni upp á 280 - 380 milljarða króna á ári næstu 3 árin sem gætu skilað um 26 þúsund ársverkum á næstu árum, framkvæmdir sem mundu hafa veruleg áhrif á efnahagsframvindu næstu ára, takist að koma einhverjum hluta þeirra á legg. Þessar framkvæmdir myndu því slá á gríðarlegt atvinnuleysi sem er og fer vaxandi. Framkvæmdastjórnin krefst þess „að Alþingi og ríkisstjórn snúi bökum saman, klári Icesave málið, hrindi efnahagsáætluninni í framkvæmd og gefi Stöðugleikasáttmálanum það líf að hann verði sá vegvísir út úr vanda kreppunnar sem ætlast var til." „Launþegar og verkalýðshreyfingin hefur axlað sína ábyrgð á leið Íslands út úr vandanum. Það verða aðrir að gera líka," segir í ályktun framkvæmdastjórnar sem hér fer á eftir.
„Alvarlegt ástand efnahags- og atvinnumála fer enn versnandi. Atvinnulausir eru nú ríflega 9% vinnufærra Íslendinga eða um 17 þúsund manns. Það stefnir í að þeir verði 18.000 þetta árið og það næsta ef ekki tekst að ná tökum á þróuninni. Efnahagsáætlun ríkisstjórnarinnar með aðkomu Alþjóða gjaldeyrissjóðsins og stuðningi Norðurlandanna stendur í stað, fyrst og fremst vegna þess að enn hefur ekki tekist að semja um Icesave málið og leysa aðra óvissuþætti. Nýjar hagspár gera ráð fyrir of litlum hagvexti til þess að nógu mörg störf skapist til að það dragi úr atvinnuleysinu.
Framkvæmdastjórn Starfsgreinasambandsins krefst þess að alþingismenn taki höndum saman um endurreisn efnahagskerfisins og setji hagsmuni þjóðarinnar í forgang. Alþingi verður að vinna traust þjóðarinnar á ný og taka upp ábyrg vinnubrögð. Það þarf að endurheimta fyrra atvinnustig og lífskjör sem fyrst. Það er hægt með því að setja atvinnusköpun í forgang, sérstaklega með fjárfestingum og vexti í útflutningsgreinum. Framkvæmdastjórnin minnir á að Stöðugleikasáttmálinn var liður í þeirri áætlun, áætlun sem ekki hefur náð fram varðandi stórframkvæmdir og önnur brýn atvinnuskapandi verkefni. Í júní í fyrra gerðu menn sér vonir um fjárfestingaverkefni upp á 280 - 380 milljarða króna á ári næstu 3 árin. Þar af voru verkefni sem þegar höfðu verið ákveðin með ujm 10 þúsund ársverk fram til 2014. Orkutengd verkefni áttu að skila meira en 13 þúsund ársverkum á sam tíma og heppileg verkefni fyrir einkafjármögnun um 2600 ársverkum. Öllum var ljóst að það mundi hafa veruleg áhrif á efnahagsframvindu næstu ára, takist að koma einhverjum hluta þessara framkvæmda af stað en það hefur dregist úr hömlu. Sveitafélög verða einnig að taka sér tak, leggja sitt af mörkum og láta ekki ósætti um aðal- eða deiliskipulag standa í vegi framkvæmda sem þegar eru á borðinu eins og mörg dæmi eru um.
Framkvæmdastjórnin krefst þess að Alþingi og ríkisstjórn snúi bökum saman, klári Icesave málið, hrindi efnahagsáætluninni í framkvæmd og gefi Stöðugleikasáttmálanum það líf að hann verði sá vegvísir út úr vanda kreppunnar sem ætlast var til. Launþegar og verkalýðshreyfingin hefur axlað sína ábyrgð á leið Íslands út úr vandanum. Það verða aðrir að gera líka."