Translate to

Fréttir

Kreppan kallar á aðgerðir - opið bréf til ríkisstjórna Norðurlanda

Industrianställda i Norden, IN sem eru samtök stéttarfélaga með um 2,1 milljón félagsmanna í iðnaði á Norðurlöndum sendi ríkisstjórnum landanna fimm opið bréf dags. 6. nóvember s.l. um aðgerðir gegn kreppunni. „Nú er ekki tími til að hörfa. Það er ekki leið til að takast á við efnahagsvandann. Þvert á mót þarf markvissar og skilvirkar aðgerðir. Því fyrr, því betra," segir þar.

 

Í bréfinu er fjallað um mikilvægi aðgerða gegn atvinnuleysi og aðgerðir til styrktar hvers konar iðnaði. Miklu atvinnuleysi er spáð á Norðurlöndum árin 2010 og 2011 og „tilraunir til að leysa kreppu með launalækkunum í einstökum fyrirtækjum mun aðeins gera illt verra." Stuðningur við þá sem missa atvinnuna er mjög mikilvægur og „það hlýtur að vera hagkvæmara að fjárfesta í mögulegri atvinnuþátttöku en að annast stóra hópa atvinnulausra um lengri tíma," segir ennfremur í bréfinu.

  

IN leggur áherslu á að mikilvægt sé að skapa atvinnutækifæri í hefðbundnum greinum en það verður einnig að skapa frjósaman jarðveg fyrir nýsköpun sem tryggir framtíð iðnaðar á Norðurlöndum. Norrænu ríkisstjórnirnar verða að bera ábyrgð, bæði gagnvart atvinnulífinu og loftslagákvörðunum með því að styrkja markvisst rannsóknir og þróun. Það er nauðsynleg forsenda fyrir framtíðarmöguleika norræns iðnaðar á alþjóðlegum mörkuðum.

 

IN leggur einnig áherslu á að tryggja þurfi stöðugleika í starfsskilyrðum starfandi fyrirtækja þar sem iðnaðurinn sé lykilatvinnugrein til að tryggja vöxt, velferð og atvinnu til framtíðar.


Bréfið í heild, sem þeir Kristján Gunnarsson formaður SGS og Finnbjörn Hermannsson formaður Samiðnar undirrita með félögum sínum á Norðurlöndunum  má sjá hér: Opið bréf

 

Deila