Translate to

Fréttir

Kröfur félaga Verk - Vest í komandi kjarasmningum

Höfuðstöðvar Verk Vest á Ísafirði Höfuðstöðvar Verk Vest á Ísafirði
 

Niðurstöður kjaramálakönnunar sem Verk - Vest stóð fyrir á meðal félagsmanna, sýna að mikill samhugur er um að mestur þungi í komandi kjarasamningum verði á umtalsverðar hækkanir lægstu launa ásamt stórauknum kaupmætti. Lágmarkslaun verði í lok samningstímans 41,5% af grunn þingfarakaupi, og fylgi síðan launaþróun þingfarakaups. Með því verði tryggt að lægstu laun dragist ekki aftur úr eðlilegri launaþróun.


Þá kemur einnig fram að félagsmenn krefja stjórnvöld um breytingar á skattaumhverfi launþega, þar vegur krafan um persónuafsláttinn og skattleysismörkin þyngst. Enda ótrúlegt að í velferðarsamfélagi eins og okkar þá séu skattleysismörk um 30% undir reiknuðum fátækramörkum félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands sem eru um 130 þús. í dag.

Mikill samhljómur var meðal okkar félaga og annarra að hækka orlofs og desemberuppbætur og þær verði samræmdar miðað við það sem best gerist á vinnumarkaði. Réttur launþega á vinnumarkaði var sömuleiðis einn af helstu áhersluþáttum könnunarinnar, þá sérstaklega að tryggja áunnunn rétt á milli vinnuveitanda í orlofs- og veikindamálum sem og starfsaldursmati. Þá er félagsmönnum hugleikinn aukinn réttur vegna veikinda barna, og eru þar langveik og fötluð börn engin undantekning.


Þá voru einnig lagðar áherslur á atriði eins og dagvinnutryggingu í akkorðsvinnu fiskvinnslufólks, heildarkjarasamningar fyrir landverkafólk í beitningu. Framlag í lífeyrissjóði verði aukið, jafnaðarkaupi útrýmt og taxtar færðir að greiddum launum einnig verði tekið á launaleynd og "gerviverktöku". Greitt verði fyrir matar og kaffitíma í yfirvinnu líkt og hjá iðnaðarmönnum og að stjórnendur og verkstjórar sæki fagnámskeið varðandi kjarasamninga.

Meðal landsbyggðarfélaga innan Starfsgreinasambands Íslands var ekki annað að heyra en sama væri upp á teningnum hjá þeim og á okkar svæði að lítið færi fyrir margumtöluðu launaskriði. Þá verður gerð sú krafa að stjórnvöld leggi sitt af mörkum til að viðhalda stöðugleikanum, launþegar hafa þurft að axla þá ábyrgð of lengi einir.

 

Deila