Translate to

Fréttir

Kvennafrí (kvennaverkfall)

Á degi Sameinuðu þjóðanna, þann 24. Október 1975 var haldið kvennafrí á Íslandi í fyrsta skipti og vöktum við heimsathygli fyrir, en hvað er kvennafrí?

Konur sameinuðust í baráttu fyrir því að framlag þeirra til samfélagsins verði virt að verðleikum, þá bæði á vinnumarkaði og á öðrum vettvangi. Konur tóku sér frí frá vinnu þennan dag til að undirstrika þann gífurlega launamun milli karla og kvenna í sömu störfum og lögðu með því áherslu á mikilvægi sitt á vinnumarkaði.

Síðan fyrsta kvennafríið var haldið hafa liðið 48 (fjörutíu og átta) ár og ætla mætti að konur og karlar væru búin að standa jafnfætis svo áratugum skiptir. Svo er alls ekki! Talsverður árangur hefur náðst en við eigum langt í land ennþá, ...allt of langt. Síðan 1975 hefur krafa um jafnrétti orðið betur skilgreind, en nú er barist fyrir jafnrétti kynjanna (kvenna og kvára) á öllum vígstöðvum, sama hvort horft er á jöfn laun, álag vegna heimilis (þriðja vaktin), þátttöku í valdastöðum, já, og baráttu gegn kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi. Er það svo að okkur sem samfélagi finnist í lagi að á grundvelli kyns sé í lagi að beita ofbeldi, hvort sem það er af kynferðislegum, andlegum, líkamlegum eða fjárhagslegum toga?

Eftir 48 ára sögu kvennafrídagsins hafa konur og kvár misst þolinmæðina. Til að leggja áherslu á baráttuna er dagurinn í ár kvennaverkfall og leggja konur og kvár niður störf í allan dag!

Höfnum misrétti og styðjum baráttu fyrir alvöru jafnrétti!

Verkalýðsfélag Vestfirðinga færir atvinnurekendum sem styðja málstaðinn og skerða ekki laun kvenna og kvára í kvennaverkfalli bestu þakkir.

Deila