Translate to

Fréttir

Kynningarfundur ráðgjafa Virk starfsendurhæfingarsjóðs

Fyrsti kynningarfundur ráðgjafa Virk starfsendurhæfingarsjóðs var haldinn í fundarsal Verk Vest í dag. Ætlunin var að ráðgjafar frá Virk í Reykjavík kæmu til fundarins en vegna hvassviðris var ekki unnt að fljúga vestur í tæka tíð. Í stað þess að fresta fundinum var brugðið á það ráð að Fanney Pálsdóttir ráðgjafi sjóðsins á Vestfjörðum sæi um kynninguna sem tókst í alla staði mjög vel. Nokkuð líflegar umræður urðu að lokinni kynningunni og var það mál fundarmanna að hugmyndafræðin um snemmbær inngrip í veikindaferli einstaklingsins væri úrræði sem hefði vantað.
 
Eins og áður hefur komið fram í frétt hér á vefnum þá er Fanney með aðstöðu á skrifstofu Verk Vest og geta einstaklingar leitað til hennar á þriðjudögum frá kl.08:00 - 16:00.  Þá er einnig mögulegt að fá viðtalstíma og gæti Fanney þá mætt á vinnustað ef þess er óskað. Sími hjá ráðgjafnum er 4565190 og netfang virk@verkvest.is  Einnig má benda félögum í Fos Vest og Verkalýðs- og sjómannafélagi Bolungavíkur að viðtal við ráðgjafann getur einnig farið fram á skrifstofum félaganna sé þess óskað.  Á fundinum kom fram að ætlunin er að ráðgjafinn verði með kynningar á vinnustöðum á næstu vikum þar sem farið verður yfir hlutverk ráðgjafans og tengsl hans við atvinnulífið og stéttarfélögin.
Deila