Translate to

Fréttir

LÍÚ 1 - réttindi sjómanna og fiskverkafólks 0

Þarf að fara brýna kutana? Þarf að fara brýna kutana?
Eftir síðasta útspil útvegsmanna ( LÍÚ) í kjarabaráttu sinni kom bersýnilega í ljós að ætlunarverk útvegsmanna er að takast. Það er að reka fleyg milli sjómanna og stéttarfélaga þeirra og fá sjómenn til stuðnigs við útvegsmenn í baráttunni við að lækka skiptakjör til sjómanna. Ef marka má ummmæli þeirra sjómanna sem fjölmiðlafólk ræddi við á Austurvelli í gær þá voru sjómenn mættir á Austurvöll til að sýna útgerðarmönnum samstöðu og til að verja eigin kjör. Margir þeirra sjómanna sem rætt var við voru mjög harðorðir gagnvart forustu sjómanna og stéttarfélaga sem þeir ásökuðu um að hafa ekki staðið við bakið á sjómönnum. Með þessu sannast að áróðursmaskína útvegsmanna virkar mjög vel. Við þessa sjómenn segi ég;  kynnið ykkur málin betur hjá ykkar stéttarfélögum. Forsvarsmönnum ykkar var ekki boðið á fundi útvegsmanna með sjómönnum og starfsfólki þessara fyrirtækja. Þessi vinnubrögð útgvegsmanna og forsvarsmanna fiskvinnslufyrirtækja brjóta í bága við fjórðu grein laga um stéttarfélög og vinnudeilur, en þar segir:

Atvinnurekendum, verkstjórum og öðrum trúnaðarmönnum atvinnurekenda er óheimilt að reyna að hafa áhrif á stjórnmálaskoðanir verkamanna sinna, afstöðu þeirra og afskipti af stéttar- eða stjórnmálafélögum eða vinnudeilum með:

   a. uppsögn úr vinnu eða hótunum um slíka uppsögn,

   b. fjárgreiðslum, loforðum um hagnað eða neitunum á réttmætum greiðslum.

Fulltrúum stéttarfélaga hefur beinlínis verið meinaður aðgangur að þessum fundum þegar þeir ætluðu að gæta að því að ekki væri verið hóta starfsfólki ef það fylgdi ekki útgerðinni að málum. Við núverandi aðstæður á vinnumarkaði hafa starfsmenn engan annan valkost en að taka undir með sínum atvinnurekanda af ótta við hugsanlegar afleiðingar. Starfsfólk mun verða fyrir fjárhagslegum skaða, fiskvinnslum verður lokað um lengri eða skemmri tíma vegna heimatilbúins hráefnisskorts, bónusar verða ekki greiddir í vinnslustöðvunum, sumarfrí sjómanna raskast og hver ber skaðann ? Að sjálfsögðu starfsfólkið sjálft þrátt fyrir fullyrðingar og loforð forsvarsmanna útvegsmanna um hið gagnstæða. Þessari fullyrðingu til stuðnings var starfsfólki HG í Hnífsdal tilkynnt á lokuðum fundi fyrr í vikunni að fyrirtækið myndi ekki greiða starfsfólki bónusa á meðan vinnslustöðvun varir.

Við sjómenn vil ég segja þetta; helsta markmið útgerðarmanna í kjaraviðræðum var og er enn að lækka laun sjómanna burt séð frá öllu tali um veiðigjöld. Helstu kröfur LÍÚ alveg frá upphafi kjaraviðræðna í janúar 2011 voru og eru enn, að sjómenn taki enn meiri þátt í kostnaði útgerðarinnar. Þetta get ég fullyrt þar sem ég hef tekið þátt í kjaraviðræðum forustu sjómanna við LÍÚ og þekki því málin frá fyrstu hendi. Launlækkunum sjómanna ætla útvegsmenn að ná fram með breytingum á hlutaskiptakerfinu þannig að minna komi til skiptanna þegar hlutur skipverja í aflaverðmæti er reiknaður. Þessu hafa samtök sjómanna hafnað með öllu.  Það er ömurlegt hvernig hræðsluáróður útvegsmanna um umtalsverða launaskerðingu til sjómanna verði veiðigjaldið að veruleika er notaður gegn sjómönnum. Sérstaklega í ljósi þess að markmið útgerðarinnar er að lækka laun þeirra hvort hvort sem veiðigjald verður sett á eða ekki. Þessa staðreynd verða sjómenn að hafa í huga áður en þeir leggjast í sæng með útgerðarmönnum til að verja kjör útgerðarmanna sjálfra og um leið skerða eigin kjör.

Finnbogi Sveinbjörnsson, formaður Verkalýðsfélags Vestfirðinga.

Deila