Translate to

Fréttir

"Lægjum öldu reiði og óánægju - byggjum upp til framtíðar !"

Góðar umræður sköpuðust á fjölmennum fundi Góðar umræður sköpuðust á fjölmennum fundi
Fundarmenn spá í spilin Fundarmenn spá í spilin
Góðærið kom ekki við á Vestfjörðum ! Góðærið kom ekki við á Vestfjörðum !

Fundur stjórnar og trúnaðarráðs Verkalýðfélags Vestfirðinga sem var haldinn í húsi félagasins í gær var vel sóttur og umræður heitar og líflegar. Helsta mál á dagskrá fundarins var nýgerður samningur við Launanefnd sveitafélaga um framlengingu kjarasamnings og breytingar sem honum fylgja. Þá var einnig tekið fyrir breytingar á atvinnuleysisbótum sem fjall um hlutastörf og hlutabætur sýndist sitt hverjum í þeim efnum en almennt voru fundarmenn á því að þessar breytingar stuðluðu að því að gera fyrirtækjum og starfsfólki að halda ráðningarsambandi ef fara á í breytingar á starfskjörum. Ítrekað var að fyrirtæki ættu að skoða þessa möguleika áður en ákvörðun yrði tekin um uppsagnir.

Nokkrar umræður urðu einnig um  breytingar á lögum um greiðslujöfnun. En það var álit fundarmanna að þessar breytingar væru einungis til þess fallnar að lengja í skuldaól þeirra sem illa stæðu. Þeir sem væru í greiðsluerfiðleikum ættu að skoða greiðsluerfiðleika úrræði íbúðalánasjóðs og lífeyrissjóðanna fyrst. Þetta útspil ríkisstjórnarinnar væri álíka slæmt og útspil hennar við breytingar á gjaldeyrislögunum og gerði ekkert annað en auka enn frekar á þann vanda sem fyrir væri.
Á fundinum urðu einnig heitar umræður um þá gjá sem fundarhaldarar á höfuðborgarsvæðinu væru að skapa á milli launþega í landinu og verkalýðshreyfingarinnar.  Þar væri launþegum att á foraðið í ljósi þess að verkalýðsfélögin væru helstu gæslumenn verðtryggingarinnar.  Þessi aðför að stéttarfélögunum er með öllu óréttmæti í ljósi þess að það velferðarsamfélag sem við byggjum í dag er í raun stéttarbaráttu landsmanna og verkalýðsfélögunum að þakka. Fundarmönnum var einnig hugleikin umræðan um niðursveifluna, en hún hefur verið viðvarandi á Vestfjörðum um allnokkurn tíma. Það sýna tölur um neikvæðan hagvöxt og að Vestfirðir sem áður voru skilgreindir sem hátekjusvæði væru nú skilgreindir lágtekjusvæði. Í kjölfar þessa var lögð fram eftirfarandi ályktun sem var samþykkt með einu mótatkvæði.


Brýnt að skapa tiltrú á endurreisn atvinnu- og fjármálalífs  íslensks samfélags.

"Til að lægja öldur reiði og óánægju hlýtur krafan um opna og upplýsta rannsókn á atburðum undangenginna vikna og í framhaldinu skýrar leikreglur um starfsemi fjármálafyrirtækja að vera í fyrirrúmi.  Stjórn og trúnaðarráð Verkalýðsfélags Vestfirðinga lýsir algjöru vantrausti á að stjórnendur nýju bankanna skuli vera sama fólkið og hélt áður um stjórnartauma þeirra. Sýnt þykir að sömu aðilar bera stærstu ábyrgð á þeim vanda sem þjóðinni hefur verið komið í.  Þá verði látið af pólitískum skipunum í stjónir seðlabanka og fjármálaeftirlits, og núverandi stjórnendum verði gert að víkja tafarlaust.


Samfélag siðvæðingar er það sem almenningur vill taka þátt í, þar sem auðlindir þjóðarinnar verði að sameign hennar. Þannig næðist sátt um þátttöku landsmanna í því uppbyggingarstarfi sem  framundan er. Við viljum byggja upp samfélag með fjölbreyttu atvinnulífi og góðri menntun fyrir alla. Launþegasamtök í landinu í samvinnu við atvinnurekendur og stjórnvöld verða að stuðla að á Íslandi bresti ekki á með fjölda atvinnuleysi sem síðan gæti leitt af sér fjöldagjaldþrot heimila í landinu. Í því sambandi verður að varast að leggja frekari álögur á heimilin í formi aukinnar skattheimtu. Þess konar aðgerðir ofan á vaxandi atvinnuleysi gæti leitt af sér meiri fólksflótta frá Íslandi en áður hefur þekkst, sérstaklega hjá ungu fólki.


Eitt af forgangsverkefnum er að tryggja atvinnu og stemma stigu við fólksflótta, þar vegur þyngst að verja störf fólksins. Efla þarf samstaf ráðamanna þjóðarinnar og sveitafélaga við launþegasamtök með það að leiðarljósi að verja hag heimilanna fyrir frekari áföllum. Finna þarf leiðir til að koma heimilunum út úr vítahring hárra vaxta og verðtryggingar. Þar er krafa okkar að stjórnvöld tryggi hér sama stöðugleika og sambærileg kjör á húsnæðislánum og almenningi býðst í nágrannalöndunum. Það sé leið til að búa heimilunum öruggt skjól í því gjörningaveðri sem nú gengur yfir efnahagslíf landsmanna.


Endurskoðun kjarasamningsins frá febrúar sl. og samstarf við samtök opinberra starfsmanna um sameiginlega kjarastefnu til næstu ára er mikilvægt úrlausnarefni. Allt tal um þjóðarsátt á þeim nótum sem síðast var gerð hlýtur að vera eitthvað sem launþegasamtökin eiga ekki að taka þátt í nema okkar fólki verði tryggð sanngjarnari afkoma en reyndin varð þá.

Vestfirskt verkafólk tók ekki þátt í góðærisveislunni enda tekjur þess skornar við nögl.  Tölur um neikvæðan hagvöxt bera þess einnig glöggt merki, en Vestfirðir eru nú skilgreindir sem láglaunasvæði.  Ekki er ásættanlegt að Vestfirskt verkafólk þurfi að sópa eftir partí útrásarvíkinga svo ekki sé talað um að þurfa að borga reikninginn fyrir því sem var skrifað hjá partíhöldurum og líka fyrir skemmdirnar".

Deila