Lágmarkskauptaxtar hækka um 0,58% frá 1. apríl 2025
Í kjarasamningum á almennum vinnumarkaði sem undirritaðir voru 7. mars 2024 var samið um kauptaxtaauka sem felur í sér að hækki launavísitala á almennum vinnumarkaði umfram umsamdar taxtahækkanir, hækka allir lágmarkskauptaxtar um sama hlutfall frá 1. apríl ár hvert.
Sérstök launa- og forsendunefnd kjarasamninga á almennum vinnumarkaði, sem skipuð er fulltrúum frá ASÍ og SA, kom saman til fyrsta fundar föstudaginn 7. mars sl. Nefndin hefur úrskurðað að kauptaxtaauki virkist frá og með 1. apríl næstkomandi og munu lágmarkskauptaxtar kjarasamninga hækka um 0,58% frá og með 1. apríl 2025.
Ný launatafla fyrir SGS (landverkafólk. þjónustustörf og veitingar) hefur verið gefin út í samræmi við þessa ákvörðun og er ný kauptaxta reiknivél SGS aðgengilegir hér.
Ný launatafla hefur verið gefin út fyrir LÍV (verslun og skrifstofustörf)
Ný launatafla hefur verið gefin út fyrir Samiðn (faglært iðnaðarfólk).
Meginmarkmið stöðugleikasamninganna sem undirritaðir voru í fyrra var að stuðla að minnkun verðbólgu og lækkun vaxta og var forsendunefndin sammála um að árangur samninganna hafi verið merkjanlegur. Verðbólga hefur hjaðnað og vextir lækkað á sama tíma og kaupmáttur launa hefur aukist. Forsendur eru fyrir framhaldi þar á, þótt óvissa um efnahagshorfur hafi aukist á alþjóðavettvangi.
Í yfirlýsingu sinni hvetur forsendunefndin stjórnvöld, Seðlabankann og fyrirtæki til að vinna áfram að markmiðum samninganna og skapa þannig forsendur fyrir áframhaldandi minnkun verðbólgu og lækkun vaxta. Einnig er brýnt að ríki og sveitarfélög gæti hófs í gjaldskrárhækkunum og stuðli einnig að hraðari íbúðauppbyggingu.