Látum verkin tala !
Ljóst þykir að þau verkefni sem ennþá bíða afgreiðslu hjá nýju ríkisstjórninni þola enga bið. Nauðsynlegt er að bretta upp ermar og láta verkin tala, leggja til hliða ómálefnalegt dægurþras og óþarfa málalengingar á meðan þjóðin rambar á barmi gjaldþrots ef marka má nýjustu spár og fréttir þar um. Á miðstjórnarfundi ASÍ þann 18. febrúar sl. var þetta aðgerðarleysi Alþingis harmað mjög og þótti miðstjórn tilhlýðilegt að senda frá sér eftirfarandi ályktun í kjölfar umræðu um atvinnu- og efnahagsmál.
"Miðstjórn Alþýðusambands Íslands beinir þeirri eindregnu áskorun til Alþingis og ríkisstjórnar að grípa þegar til markvissra aðgerða til aðstoðar heimilum og fyrirtækjum í landinu. Það er ekki boðlegt að á meðan hriktir í grunnstoðum samfélagsins og fjölskyldum og fyrirtækjum blæðir, horfi þjóðin upp á karp og hráskinnaleik á Alþingi sem engu máli skiptir og engu skilar. Slík lítilsvirðing við þjóðina er ekki líkleg til að auka tiltrú hennar á stjórnmálamönnum en trúverðugleiki þeirra skiptir einmitt sköpum í því endurreisnarstarfi sem framundan er. Miðstjórn Alþýðusambandsins hvetur alþingismenn til að snúa sér að því sem skiptir máli. Þjóðin er í vanda. Verkefnin er mörg og aðkallandi og úrlausn þeirra þolir enga bið"