Translate to

Fréttir

Launafólk! til hamingju með baráttudaginn okkar 1. maí

Yfirskrift baráttudags launafólks í ár er " Við Vinnum" en það er einmitt vinnandi fólk skapar verðmæti samfélagsins og heldur hjólum atvinnulífsins gangandi.

Aldrei varð þetta skýrara en í gegnum heilan heimsfaraldur þar sem launafólk stóð vaktina og hélt öllu samfélaginu gangandi. Í lok dags var það svo að mörg fyrirtæki gátu vel við unað í gegnum slíkt ófremdarástand sem faraldurinn var. Áður óséðar arðgreiðslur runnu óskiptar í vasa eigenda og kauphallir sprungu út. Þetta góðæri fjármagnseigenda var borið uppi á bökum vinnandi fólks.

Reyndin er samt sú að enn búa hópar launafólks við kröpp kjör og ófullnægjandi laun þrátt fyrir að vinna fullan vinnudag. Þessir hópar eiga erfiðast uppdráttar á stökkbreyttum fasteignamarkaði. Þessir hópar fá minnstan stuðning stjórnvalda. En þau eru líka við. Og við stöndum saman og við vinum.

Með samstöðu getum við náð fram brýnum kjarabótum fyrir þau okkar sem helst þurfa. Við höfum unnið marga sigra í gegnum tíðina og munum vinna marga fleiri. Í haust losna kjarasamningar á almennum markaði og þá stöndum við saman til að vinna okkar málefnum brautargengi.

Við erum fólkið sem skapar verðmætin með vinnu okkar. Við erum fólkið sem heldur samfélaginu gangandi, sama hvað á bjátar. Við erum launafólk í einu ríkasta landi heims. Við erum sterk hreyfing sem vinnur sigra.

Mætum öll í kröfugöngur dagsins og sýnum samstöðu með baráttu launafólks fyrir réttlátu samfélagi og kröfunni um mannsæmandi laun fyrir sitt vinnuframlag.

Deila