Launahækkanir komi til framkvæmda strax !
Allmörg fyrirtæki sem byggja rekstur sinn á vinnu verkafólks eða ófaglærðra virðast vissulega hafa úr meiru að moða en kom fram hjá Samtökum Atvinnulífsins í aðdraganda frestunar launahækkana. Þessi fyrirtæki hefðu að öllum líkindum getað greitt út umsamdar launahækkanir þann 1. mars sl. Nú ber svo við að eitt þessara fyrirtækja, HB - Grandi sem hafði fengið frest hjá launþegum til launahækkana, ákveður að greiða eigendum sínum all ríflegan arð. Arðgreiðslan sem um ræðir er engin ölmusa, kr. 150.000.000 já 150 milljónir króna, hún hefði dugað til að greiða fiskvinnslufólks fyrirtækisins 13.500 króna hækkunina í 8 ár, og svo segja menn að vinnsla og veiðar séu vart á vetur setjandi svo slæmt sé ástandið.
Bara það að láta hugann hvarfla að því að framkvæma slíkan gjörning er sem blaut tuska í andlit launþega sem voru nýbúnir að koma á móts við atvinnulífið og samþykkja frestun launahækkana. Það að framkvæma sýnir að siðblinda eiganda fyrirtækisins er algjör og ekki nema von að hinum almenna launamanni blöskri, enda grunntaxti eftir 7 ára starf í fiskvinnslu ekki nema 154.500 fyrir fullt starf án bónusa.
Þann 25. febrúar sl. var undirritað samkomulag á milli ASÍ og Samtaka atvinnulífsins ( SA ) um frestun á endurskoðun kjarasamninga. Þetta þýddi í raun að þær hækkanir sem áttu að skila sér í umslög launþega þan 1. mars sl. urðu ekki að veruleika. Þessu mótmæltu fimm stéttarfélög á landsbyggðinni og var Verkalýðsfélag Vestfirðinga eitt af þessum fimm félögum. Voru helstu rök þessara stéttarfélaga að SA væri að fyrst og fremst að óska eftir sveiganleika vegna umsamdra launahækkana, en ekki að þeim yrði að fullu frestað.
Að sjálfsögðu var það óska staða fyrirtækjanna að fá launahækkunum frestað fram á sumarið og ávaxta þannig eigið fé, en það átti ekki að vera á kostnað hins almenna launamanns.
Nú er svo komið að innan verkalýðshreyfingarinnar eru forustumenn í samninganefnd ASÍ að verða þess áskynja að líklega hefði verið í lagi hlusta betur á þennan háværa óþægilega minnihluta innan hreyfingarinnar sem taldi frestun hækkana ekki rétta leið. Það væri einfaldlega meira til skiptanna hjá fyrirtækjunum en Samtök atvinnulífsins hefðu látið í veðri vaka. Þetta kemur glögglega fram í ummælum nokkurra af helstu forystumönnum samninganefndar launþega.
Á heimasíðu ASÍ er haft eftir forseta Alþýðusambandsins Gylfa Arnbjörnssyni að hann ætlist til þess að fyrirtækin sem betur standi láti starfsfólkið njóta ávinnings af góðri afkomu þeirra. Einnig má lesa á heimasíðu Eflingar stéttafélags ályktun þar sem stjórn félagsins hvetur þau fyrirtæki sem búa við arðsaman rekstur að standa við umsamdar hækkanir til launafólks. Þá er sömuleiðis haft eftir formanni Starfsgreinasambandsins, Kristjáni Gunnarssyni, í Morgunblaðinu í dag að það væri greinilegt að meiri innistæða væri fyrir hækkunum en komið hafi fram á samningafundum með SA og nú þyrfti að endurmeta þá ákvörðun sem tekin var um frestunina.
Þann 5. mars sl. beindi stjórn Verkalýðsfélags Vestfirðinga þeirri hvatningu til fyrirtækja að þau hækkuðu lægstu taxta þannig að enginn launamaður yrði undir lágmarkstekjutryggingu sem er kr.157.000. Það er fyrst og fremst fyrir dugnað hinna vinnandi handa starfsfólksins sem fyrirtækjum er skapaður grundvöllur fyrir betri afkomu. Það er starfsfólkið sem eru hin raunverulegu verðmæti fyrirtækjanna og skapa þann arð sem sum fyrirtæki velja að greiða eingöngu til útvalins hóps. Góðir eigendur og stjórnendur fyrirtækja eiga fyrst og síðast að hafa velferð og starfsánægju starfsfólksins að leiðarljósi. Það verður best gert með því að skipta kökunni jafnt á milli þeirra sem hafa tekið þátt við baksturinn.
Einnig má sjá umfjöllun mbl.is um málið og ummæli Jóhönnu Sigurðardóttir forsætisráðherra um siðleysi eiganda HB - Granda