Launamunur kynjanna óbreyttur samkvæmt launakönnun VR.
Frá janúar 2015 til apríl 2016 hækkuðu grunnlaun félagsmanna VR um 14,3% og heildarlaun þeirra um 15,8%. Þetta er meðal þess sem fram kemur í árlegri launakönnun meðal félagsmanna VR sem birt er í dag. Launahækkun VR félaga er í takt við breytingar á launavísitölu Hagstofu Íslands sem hækkaði um 14,5% á sama tíma og launavísitölu VR sem hækkaði um 15,5%.
Könnunin leiðir í ljós að launamunur kynjanna helst óbreyttur á milli ára. Konur eru að jafnaði með 14,2% lægri heildarlaun en karlar og kynbundinn launamunur, það er launamunur sem ekki er hægt að skýra með neinu öðru en kynferði, er 10% en var 9,9% í síðustu könnun. Ef litið er til grunnlauna eru konur með 12,2% lægri laun en karlar og þegar búið er að taka tillit til annarra þátta sem hafa áhrif á launin situr eftir 9,9% kynbundinn launamunur í grunnlaunum. Umtalsverður munur er á kynjunum hvað varðar hlunnindi eins og símakostnað, líkamsræktarstyrki eða gsm síma. Þannig fá 87% karla slík hlunnindi en 74% kvenna. Ef konur innan VR fengju sömu laun og karlar í félaginu jafngildir núverandi launamunur því að konur séu „launalausar“ í 36 daga í ár.
Þrátt fyrir harða baráttu hefur launamunur kynjanna lítið breyst undanfarin ár og þarf að fara mörg ár aftur í tímann til að sjá marktækan mun. Síðan 2009 hefur kynbundinn launamunur hins vegar verið í kringum 10%.
Fordómar á vinnustað
Einn af hverjum fjórum félagsmönnum VR hefur orðið fyrir fordómum í vinnu einhvern tímann á ævinni og einn af hverjum tuttugu segja þetta hafa gerst síðustu 6 mánuði. Með launakönnun VR voru nokkrar spurningar um fjölbreytni og fordóma á vinnustað lagðar fyrir svarendur en VR hefur á síðustu mánuðum staðið fyrir auglýsingaherferð fyrir aukinni fjölbreytni á vinnumarkaði. Mikill meirihluti svarenda segist ekki hafa orðið var við fordóma á sínum vinnustað síðustu sex mánuðina áður en könnunin var gerð, en þar sem fordóma hefur orðið vart beinast þeir einkum gagnvart uppruna fólks (14%), trú (9%) og gagnvart konum (9%). Hátt í 80% svarenda telja að aukin fjölbreytni í starfsmannahópnum, í aldri, kyni, uppruna, kynhneigð, fötlun og trúarskoðun yrði jákvæð fyrir vinnustaðinn. Aðeins 1% telja að það yrði neikvætt en aðrir telja að það hefði engin áhrif.