Translate to

Fréttir

Launaþróunartrygging í nýjum kjarasamningi

Svokölluð launaþróunartrygging í nýgerðum kjarasamningum hefur þvælst nokkuð fyrir mönnum. Launataxtarnir hækka um 18.000 krónur á mánuði, en þeim sem hafa verið á hærri launum en taxtar segja til um er tryggð 5,5% launahækkun á tímabilinu frá 2. jan. 2007. Þeir sem skipt hafa um starf á tímabilinu 2. jan.-30. sept. 2007 hafa 4,5% launaþróunartryggingu. Ef menn hafa hins vegar byrjað hjá nýjum atvinnurekanda eftir septemberlok 2007 njóta þeir ekki launaþróunartryggingar.

Frá grunnhækkun dregst önnur sú launahækkun sem starfsmaður hefur fengið frá 2. janúar 2007 til og með gildistöku samningsins, þ.m.t. vegna hækkunar kauptaxta. Við samanburð launa skal miða við föst viku- eða mánaðarlaun að viðbættum föstum álags- eða aukagreiðslum hverju nafni sem þær nefnast. Frádráttur getur aldrei numið meiru en grunnhækkun. Tökum til dæmis mann sem hafði 250.000 kr. mánaðarlaun árið 2007. Hann fær 5,5% hækkun frá og með 1. febrúar 2008 og verður með 263.750 kr. mánaðarlaun.
 
Við höfum sett á vefinn Excel-skjal þar sem hver og einn getur skoðað hvað hann á að fá, hafi hann verið á hærri föstum launum en taxtar sögðu til um. Þetta er að sjálfsögðu með þeim fyrirvara, að launin verða aldrei lægri en nýr launataxti fyrir starf viðkomandi.

Deila