Translate to

Fréttir

Leggjum spilin á borðið

Á fundi stjórnar Verk Vest, sem haldinn var þriðjudaginn 7. febrúar, varð mikil umræða vegna nýútkominnar skýrslu úttektarnefndar lífeyrissjóðanna sem unnin var um starfsemi, fjárfestingarstefnu og ákvarðarnartöku stjórnar Lífeyrissjóðs Vestfirðinga.  Stjórn Verk Vest fagnar útkomu skýrslunnar og hvetur sjóðsfélaga til málefnalegar og gagnýrninnar umræðu um niðurstöðu hennar. Ljóst er að gríðarlegir fjármunir hafa tapast við fall bankanna og harmar stjórn Verk Vest að hinn almenni sjóðfélagi skuli þurfa taka á sig skerðingar vegna þessa.
 
En eitt af því alvarlegasta sem skýrslan bendir á er hið hrópanadi óréttlæti og mismunun sem landsmenn búa við eftir því hvort þeir greiði iðgjöld í almenna sjóði eða hina opinberu.  Þvi ekki eingöngu þurfa okkar sjóðfélagar að taka á skerðingu vegna tapaðra fjármuna okkar sjóða heldur einnig vegna aukinnar skattbyrgði sem lögð er á almennu sjóðina svo hægt sé að viðhalda óbreyttu réttinda kerfi opinberu sjóðanna. Verum þess minnug að eitt af stóru loforðum ríkisstjórnarinnar frá kjarasamningunum 2011 var jöfnun lífeyrisréttinda landsmanna. Niðurstöður skýrslunnar staðfesta með óyggjandi hætti að þá vinnu verður að hefja strax.

Stjórn Verk Vest hvetur stjórn Lífeyrissjóðs Vestfirðinga til að leggja spilin á borðið og upplýsa hinna almenna sjóðfélaga um hvert hið raunverulega tap sjóðsins á tímabilinu 2005 - 2010 var, og hve mikil skerðing á réttindum hefur orðið  þegar til lengri tíma er litið. Við skulum leggja alla hræsni til hliðar og vera þess minnug að við sjálf gerðum þá kröfu að okkar sjóður skilaði sambærilegri eða jafnvel hærri ávöxtun en raunhæft var að gera til langtímasparnaðarforms, eins og lífeyrissparnaður vissulega er. Eftir því sem ávöxtunin varð hærri urðu líkurnar á djúpri niðursveiflu einni meiri ef fjármálakerfi landsins fengi áfall líkt og gerðist í bankahruninu 2008.
  
Þrátt fyrir þá erfiðu stöðu sem lífeyrissjóðirnir hafa staðið frammi fyrir frá árinu 2008 má ekki gleymast að Lífeyrissjóði Vestfirðinga tókst þrátt fyrir allt að standa hrunið að mestu af sér, sem er meira en hægt er að segja um banka og sparisjóði landsmanna. Þetta sýnir ársreikningur sjóðsins fyrir árið 2010 borið saman við árin fyrir hrun.  Þar má sjá að hrein eign til greiðslu lífeyris í lok árs 2010 var 26,2 milljarðar króna og hafði lækkað um 1,2 milljarða króna frá árslokum 2007. Þessi mikli viðsnúningur réttlætir þó ekki það mikla tap sem sjóðurinn varð fyrir. En nánast ógjörningur var að bregðast við þeim áföllum án þess að eitthvað yrði undan að láta.

Stjórn Verk Vest stefnir að því að kalla saman fulltrúaráð félagsins í Lífeyrissjóði Vestfirðinga þegar línur eru farnar að skýrast betur,  til að fara yfir niðurstöður úttektarnefndarinnar. Stjórn félagsins telur það skyldu þess að sjá til að sjóðfélagar verði upplýstir á mannamáli um stöðu sjóðsins og þeim þannig sýnt fram á hvernig stjórn sjóðsins hafi brugðist við til að koma í veg fyrir að slík staða geti komið upp að nýju .  

Deila