Translate to

Fréttir

Lilja Rafney: Nú reynir á kjark og hugrekki stjórnmálamanna

Lilja Rafney Magnúsdóttir Lilja Rafney Magnúsdóttir
Lilja Rafney Magnúsdóttir þingkona VG og stjórnarmaður í Verk-Vest hefur sent vefnum pistil um hugmyndir starfshóps um endurskoðun á lögum um stjórn fiskveiða. Eins og kunnugt er voru uppi margar skoðanir í hópnum, en meiri hluti hans var fylgjandi svokallaðri "samningaleið", sem ekki kemur óvart þegar samsetning hans er höfð í huga. Lilja lagði fram sérstaka bókun þegar hópurinn skilaði af sér. Þar er lögð áhersla á eftirfarandi grundvallarskilyrði sem Lilja telur að verði að uppfylla ef samningaleiðin verður fyrir valinu:
  • Að framsal sé óheimilt nema með samþykki beggja samningsaðila og að uppfylltum ákveðnum skilyrðum sem m.a. tryggja að hugsanlegur ágóði renni til ríkisins.
  • Framsal verði ekki heimilað hafi það í för með sér byggðaröskun. Ákvæði verði sett í samninga um byggðatengingu aflaheimilda til að styrkja búsetuskilyrði íbúanna og til að koma í veg fyrir byggðaröskun og frekari samþjöppun aflaheimilda.
  • Skýr ákvæði séu sett um veðsetningu samninga sem háð séu samþykki beggja samningsaðila. Ef veðsetning verður heimiluð á annað borð þá verði hún takmörkuð við þarfir sjávarútvegsins.
  • Að við innköllun allra aflaheimilda á einu bretti og endurúthlutunar á grundvelli nýtingarsamnings gegn gjaldi verði byggt á jafnræðissjónarmiðum.
  • Að í samningum verði leiguframsal afnumið og tryggður opinber leigumarkaður með aflaheimildir sem nýtast m.a. til nýliðunar.
  • Sett verði á aukin veiðiskylda handhafa veiðiheimilda þó takmörkuð tegundatilfærsla verði heimiluð eftir sem áður.
  • Að ráðstöfun á aukningu aflaheimilda komi ekki sjálfkrafa inn á gildandi samninga og geti aukningin því nýst til nýliðunar og byggðatengdra aðgerða ásamt því að aflaheimildirnar verði settar á opinberan leigumarkað.
  • Að tryggt sé að handhafi aflaheimilda samkvæmt samningi starfi eftir gildum kjarasamningi og brot geti þýtt riftun samninga.
  • Setja verður almenn skilyrði fyrir gerð samnings svo sem um tilskilin rekstrarleyfi sem fela m.a. í sér skil á opinberum gjöldum. Á sama hátt verði sett ákvæði um riftun ef samningsaðili brýtur þau ákvæði sem sett eru.

Í lok greinarinnar brýnir höfundur samstarfsmenn sína á Alþingi með orðunum: " Þjóðin bindur vonir við að vinstristjórn hafi hugrekki og þor til að gera þær breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu sem skapi heilbrigðara og réttlátara fyrirkomulag fyrir þjóðina alla."

Grein Lilju í heild er birt undir Pistlar hér til hægri.



Deila