Translate to

Fréttir

Lítil virðing borin fyrir afkomu launþega !

Um liðin mánaðarmót hækkuðu laun á almennum vinnumarkaði um kr.11.000 á taxtalaun og um 3,25% á önnur laun. Með sátt um framlengingu kjarasamninga var því beint til aðila í verslun og þjónustu í landinu að velta launahækkunum ekki beint út í verðlagið með tilheyrandi keðjuverkun; hækkun neysluvísutölu, verðbólgu og þar með hækkun húsnæðislána. Nýjasta verðkönnun ASÍ staðfestir að lítil sem engin virðing er borin fyrir afkomu launþega. Hækkanir dynja á okkar fólki úr öllum áttum og ekki er að sjá að nokkurt lát hafi orðið á þrátt fyrir hvatningu aðila vinnumarkaðarins um að fyrirtæki haldi aftur af verðhækkunum. Í nýjustu könnun ASÍ kemur fram að frá því í haust hefur verð á matvörukörfu ASÍ hækkað umtalsvert í nær öllum verslunarkeðjum. Mest er hækkunin í versluninni Iceland, ríflega 10% og í Krónunni 9%. Í verslunum 10-11 hefur vörukarfan hækkað um 6,4%, í Hagkaupum um 5,6% og í Bónus um 4,2%. Í Nóatúni og Samkaupsverslununum nemur hækkunin 2-3% ! Einnig má benda á athyglisverða úttekt í nýjasta blaði The Reykjavik Grapevine á vöruverði ýmissa neysluvara á Íslandi 2007 - 2012. Þar kemur fram að kílóið af ýsuflaki hafi hækkað um 44,3%, kaffipakkinn um 105,19% og ávextir og grænmeti milli 110 -160%  á umræddu tímabili. Hvernig á almenningur í landinu að láta enda ná saman þegar vöruverð og þjónusta hækkar úr öllu hófi, og svo er kvartað um að verslun sé að flytjast úr landinu! Fróðlegt væri að fá frá Samtökum verslunar og þjónustu að rekstrarumhverfi á Íslandi sé í raun það fjandsamlegt að ekki sé hægt að standa í þeim rekstri nema demba verðhækkunum stöðugt út í verðlagið. Launafólk á Íslandi verður að snúa bökum saman og sniðganga þá aðila í verslun og þjónustu sem hegða sér með þessum ósvífna hætti sem fram kemur í könnun ASÍ.  
Deila