Litlu jólin hjá íslenskunemum
Nýlega lauk hjá Fræðslumiðstöð Vestfjarða námskeiðum íslensku fyrir útlendinga. U.þ.b. 70 nemendur stunduðu á námið í fimm hópum á Flateyri, Suðureyri, Bolungarvík og Ísafirði. Af þessu tilefni var slegið upp veislu, nokkurs konar Litlu jólum, í nýjum húsakynnum Fræðslumiðstöðvarinnar að kvöldi fimmtudagsins 11. des. s.l. Þar mættu nemendur frá Ísafirði, Flateyri og Suðureyri, utan örfáir sem ekki áttu heimangengt. Þarna var saman komið fólk af mörgum þjóðernum og ýmsum starfsstéttum; fiskvinnslufólk, sjúkraþjálfarar, beitningamenn og háskólanemar svo eitthvað sé nefnt. Einnig voru mættir kennarar, starfsfólk Fræðslumiðstöðvarinnar o.fl., í allt yfir 50 manns. 17 nemendur í Bolungarvík höfðu þegar lokið sinni útskriftarsamkomu.
Smári Haraldsson forstöðumaður Fræðslumiðstöðvarinnar afhenti nemendum útskriftarskírteini og síðan var borðaður þjóðlegur íslenskur jólamatur, hangikjöt með uppstú og laufabrauði. Að máltíð lokinni voru sungin gamalkunnug lög tengd jólahaldi - auðvitað á íslensku. Að lokum skiptust þátttakendur á jólapökkum.
Samkoman var sérstaklega vel heppnuð, allir skemmtu sér hið besta, voru í jólaskapi og létu rafmagnstruflanir ekkert á sig fá.
Framhald verður á íslenskunámskeiðum í janúar og er búist góðri þátttöku. Stefnt er að því að hóparnir í íslenskunáminu geri sér glaðan dag þegar námskeiðum lýkur í vor, fari í stutt ferðalag eða geri eitthvað skemmtilegt saman.