Translate to

Fréttir

Með ólíkindum

 

Formannafundur Starfsgreinasambandsins lýsti í gær fullum stuðningi við forustu ASÍ, í viðræðum hennar við Samtök atvinnulífsins og ríkisvaldsins um það alvarlega ástand sem ríkir í fjármálageiranum. Í þeim viðræðum var sameiginleg krafa ASÍ og SA um agaða hagstjórn og skýr skilaboð um breytta peningamálstefnu, aðildarumsókn að ESB og upptöku evru ofarlega á lista. Það kom heldur ekki til álita að lífeyrissjóðirnir flyttu 200 milljarða af eignum sjóðanna heim í þeim tilgangi að styrkja gjaldeyrisforðann nema bankarnir losuðu um eitthvað af erlendum eignum sínum líka. Um áform bankanna í þeim efnum lágu engin skýr svör. Forsætisráðherra lýsti því svo óvænt yfir um miðnættið að ekki væri lengur aðgerða þörf. „Það er mjög góður vilji hjá bönkunum til að selja eignir í útlöndum og ég tel að það sé nauðsynlegt," sagði Geir, það var allt og sumt.

Aðgerðarpakkinn er ekki lengur nauðsynlegur. Gengið hlýtur að styrkjast, vextirnir hljóta að lækka, stöðugleikinn heldur innreið sína í efnahagslífið, kaupmáttur mun aukast á ný, hjól atvinnulífsins fara að snúast, gjaldþrotahrinan líður hjá og allur almenningur þarf ekki að óttast að fjármunir þessi fuðri upp á altari peningamálastefnu Seðlabankans.


Úlfur, Úlfur!

Vandinn sem forsætisráðherra vildi aldrei upplýsa um hversu mikill væri, öðru vísi en sem ,,ógurlegum," meira að segja mjög ógurlegum, reyndist vera heimabakaður af bönkunum, eins og Þorvaldur Gylfason upplýsti okkur um í Silfri Egils í gær.

Atburðarásin öll um helgina var ,,með ólíkindum", eins og forseti ASÍ orðaði það við fjölmiðla, - með ólíkindum.


Án samráðs við aðila vinnumarkaðarins. - Leikbrögð bankanna.

Sú alvarlega spurning hlýtur þó að sitja eftir; um hvað snérist málið?

Svar: Leikbrögð. Leikbrögð Kaupþings og Landsbanka sem í gær kl. 17:00, náðu samkomulagi um hugmyndir um hvernig bankarnir tveir gætu unnið saman að því tryggja stöðugleika í fjármálalífinu í samvinnu við ríkisstjórn og Seðlabanka, án samráðs við aðila vinnumarkaðarins.

Svo virðist sem þessir aðilar hafi ekki hag af agaðri peningamálastefnu. Menn þurfa að geta leikið sér frítt, það þarf að vera unnt að viðhalda vaxtaokrinu, Davíð í Seðlabankanum og tangarhaldi á íslenskum almenningi.

Meðan á þessum leikbrögðum stóð var bankamálaráðherrann í símanum við útlönd. Það reyndist óþarfi.

Ath. Þegar þetta er ritað liggur fyrir tilkynning frá Fjármálaeftirlitinu um að loka fyrir viðskipti með bankana. Ákvörðunin er tekin til að vernda jafnræði fjárfesta, meðan beðið er eftir tilkynningu, þ.e. niðurstöðu af leikbrögðum helgarinnar.

Sk.Th.

Deila