Translate to

Fréttir

Miðstjórn ASÍ ályktar: Standið við fyrirheitin

Ályktun miðstjórnar ASÍ um fjárlagafrumvarpið

Miðstjórn ASÍ lýsir yfir áhyggjum sínum af nýframlögðu fjárlagafrumvarpi. Aldrei áður hefur þjóðin staðið frammi fyrir eins erfiðum ákvörðunum eins og fram komi í þessu frumvarpi. Ljóst má vera að það mun hafa áhrif á hag allra, með samdrætti í þjónustu hins opinbera og auknum álögum á almenning. Þessi erfiða staða hefur verið þekkt allt frá því snemma á árinu. Alþýðusambandið hefur því lagt áherslu á að óhjákvæmilegum byrðum efnahagshrunsins verði dreift með eins sanngjörnum hætti og kostur er.

ASÍ hefur lagt áherslu á að verja stöðu skuldsettra heimila, unga barnafólksins og þeirra tekjulægri. Í síðustu kjarasamningum samdi ASÍ við þáverandi ríkisstjórn um hækkun barna- og vaxtabóta á árunum 2008 og 2009 og hækkun skattleysismarka á árunum 2009 til 2011. Þá beitti sameinuð verkalýðshreyfing sér fyrir því við gerð stöðugleikasáttmálans að viðkvæmustu þáttum velferðar-, heilbrigðis- og menntakerfisins yrði hlíft sem kostur væri og settar voru skorður fyrir hækkun skatta. Jafnframt sammæltust aðilar stöðugleikasáttmálans um að gera átak í að efla framkvæmdir með því að ríkið fengi lífeyrissjóðina til samstarfs um stór fjárfestingarverkefni.

Ríkisstjórnin hefur staðið við þau fyrirheit að verja eins og kostur þá þætti samfélagsþjónustunnar sem samið var um. Því miður virðist ríkisstjórnin ekki ætla að standa við fyrirheit fyrri ríkisstjórna um að létta skattbyrði lágtekjufólks. Þá virðist ríkisstjórnin lítið vera að gera til að auka atvinnu með því að ráðast í stórframkvæmdir í samstarfi við lífeyrissjóðina. Verði ekkert af því er ljóst að þriðjungs niðurskurður á framkvæmdafé er með öllu óásættanlegur.

Miðstjórn ASÍ krefst þess að gerðar verði breytingar á fjárlagafrumvarpinu, þar sem staðið verði við fyrirheit um að létta skattbyrði þeirra tekjulægstu og komið verði betur til móts við erfiða greiðslustöðu heimilanna með hækkun barna- og vaxtabóta. Mikilvægt er að náið samráð verði haft við verkalýðshreyfinguna um nauðsynlegar skattkerfisbreytingar. Ennfremur ítrekar miðstjórnin mikilvægi þess að þegar í stað verði ráðist í framkvæmdir í samstarfi við lífeyrissjóðina til að efla atvinnu og hagvöxt.

Deila