Miðstjórn ASÍ ályktar um áformuð samningssvik ríkisstjórnarinnar
Á fundi miðstjórnar ASÍ varð nokkur umræða um þau áform ríkisstjórnarinnar að svíkja gerða samninga er varðar verðtryggingu persónuafsláttar og sérstaka 3.000 kr hækkun hans. Að loknum umræðum þá var samþykkt að leggja fram eftirfarandi ályktun.
Miðstjórn Alþýðusambands Íslands mótmælir harðlega þeim vinnubrögðum ríkisstjórnar Íslands að virða ekki gerða samninga. Samkvæmt stjórnarfrumvarpi um breytingar tekjuskattskerfinu þá áforma stjórnvöld að afnema verðtryggingu persónuafsláttar sem ASÍ samdi um við þáverandi ríkisstjórn í tengslum við endurskoðun kjarasamninga 2006. Ríkisstjórnin lætur ekki þar við sitja heldur áformar einnig, einhliða og án viðræðna við sinn viðsemjanda, að afnema 3000 króna sérstaka hækkun persónuafsláttar sem verkalýðshreyfingin samdi um við ríkisstjórnina í tengslum við kjarasamninga í febrúar 2008 og er hluti af gildandi kjarasamningi.
Miðstjórn ASÍ hafnar alfarið vinnubrögðum af þessu tagi þar sem ekki er staðið við gerða samninga. Miðstjórn ASÍ krefst þess að ríkisstjórnin dragi þessar hugmyndir til baka þegar í stað.
Verkalýðsfélag Vestfirðinga tekur undir með miðstjórn og hvetur önnur stéttarfélög til að gera slíkt hið sama.