Translate to

Fréttir

Miðstjórn ASÍ vill að allir axli ábyrgð

Ályktun miðstjórnar ASÍ um efnahagsmál.

Miðstjórn ASÍ lýsir yfir þungum áhyggjum af stöðu efnahagsmála. Verðbólgan mælist nú 14,5% og hefur ekki verið hærri í tæpa tvo áratugi, vextir hærri en heimili og atvinnulíf fá staðið undir og búast má við að atvinnuleysi aukist með haustinu. Kaupmáttur launa dregst hratt saman og skuldsettar fjölskyldur standa frammi fyrir miklum vanda.

Miðstjórn ASÍ telur brýnt að allir axli ábyrgð á verðbólguvandanum. Rjúfa verður þann vítahring að seljendur vöru og þjónustu hækki verð í samræmi við liðna verðbólgu og leggi þannig grunn að enn meiri verðbólgu. Gerð er krafa til þess að ríki og sveitarfélög haldi aftur af gjaldskrárhækkunum sínum en nokkuð hefur borið á þeim að undanförnu.

Forsendur kjarasamninga eru brostnar en þær byggðu á þeim forsendum að það tækist að koma böndum á verðbólgu og verja kaupmátt. Miðstjórn ASÍ krefst þess að efnahagsvandinn verði tekinn föstum tökum. Reynslan hefur kennt okkur að samráð, samvinna og samstaða hafa skilað okkur mestum árangri þegar við þurft að takast á við mikla erfiðleika. Miðstjórn ASÍ hefur ítrekað kallað eftir breiðu samráði ríkisstjórnar, verkalýðshreyfingar og atvinnurekenda en undirtektir ríkisstjórnarinnar hafa valdið vonbrigðum.

Deila