Translate to

Fréttir

Mikil aukning vinnuslysa eru gróf mannréttindabrot!

Tengist ekki frétt með beinum hætti. Mynd. mbl.is. Tengist ekki frétt með beinum hætti. Mynd. mbl.is.

Ört fjölgandi dauðaslysum á vinnumarkaði sem rekja má til slælegs aðbúnaðar eða ónógra öryggisreglna virðist ekki einskorðað við íslenskan vinnumarkað. Þessar sláandi staðreyndir voru ræddar á málþingi ASÍ "Komum heil heim". Hjá máli frummælendum málþingsins voru raktar afleiðingar af auknum kröfum atvinnurekenda að afsláttur sé gefin af vinnuverndar- og öryggismálum á vinnustöðum. Fall úr hæð og léleg umgengni á verkstað er orðinn algengari orsakavaldur vinnuslysa en áður. 

Beinn kostnaður samfélagsins af vinnuslysum er gríðarlegur og hjá evrópulöndunum er kostnaðurinn reiknaður 3.26% af vergri landsframleiðslu. Yfirfært á íslenskan vinnumarkað kostuðu vinnuslys árið 2016 íslenskt samfélag um 69 milljarða. Á Íslandi skortir fyrst og fremst fjármagn til á sinna ört stækkandi vinnumarkaði sem er í þensluástandi um þessar mundir. Fálmkennd vinnubrögð og algjört stefnuleysi virðist ríkjandi hjá íslenskum stjórnvöldum þegar kemur að vinnuverndarmálum. Sem dæmi má nefna að á Íslandi eru einungis 0,7 eftirlitsfulltrúar á hverja 10 þúsund starfsmenn á vinnumarkaði á móti rúmlega 1 eftirlitsfulltrúa á hverja 10 þúsund á hinum norðurlöndunum. Afleiðingin er sláandi því aldrei hafa fleiri vinnuslys verið tilkynnt en árið 2016 eða alls um 2000 vinnuslys, þar af hefur alvarlegum vinnuslysum með beinbrotum fjölgað mest.

Alheimsvæðing og fjölþjóðasamkeppni setur ákveðinn þrýsting á löggjafa og atvinnurekendur að draga úr vinnuverndarkröfum. Viðhorf atvinnurekenda hefur breyst og fara fyrirtæki nú í ríkari mæli fram á að hægt sé að semja um vinnuvernd og afsláttur sér gefinn af öryggiskröfum á vinnustöðum. Ótaldir eru vinnustaðir sem eru gegnsýrðir af áreiti og álagi. Í erindi Pål Molander, forstjóra norsku vinnuumhverfisstofnunnar, kom fram að norskar rannsóknir sýni að starfsmaður tapi 38%  af starfsgetu ef vinnustaður er sýrður af álagi og áreiti og ef vinnuaðstæður eru slæmar. Betri starfsánægja og minna álag dregur úr veikindum og hættu á slysum. Ný nálgun Norðmanna er að gera vinnustaðinn að heilbrigðara umhverfi. Þeir sem vinna í góðu vinnuumhverfi njóta betra lífs á eftirlaunaaldri en þeir sem vinna í slæmu vinnuumhverfi. Í sama streng tók Barbro Köhler Krantz, sérfræðingur hjá frá sænska vinnueftirlitinu og bætti við að mikil aukining væri á vinnuslysum í byggingariðnaði líkt og væri að gerast á Íslandi. 

Eftir að hafa hlustað á erindi frummælenda og svör þeirra við fyrirspurnum úr sal má vera ljóst er að fyrirtæki bregðast ekki við kröfum um úrbætur til að fyrirbyggja slys á vinnustöðum. Ábyrgð fyrirtækjanna er því mikil þegar kemur að vinnuverndarmálum ekki sýst hér á landi þar sem fjölgun alvarlegra slysa er sláandi í samanburði við hin norðurlöndin. Mikil fjölgun dauðaslysa á íslenskum vinnumarkaði er óásættanleg staða, allir eiga rétt á að koma heilir heim úr vinnu. Það eru í raun sjálfsögð og eðlileg mannréttindi að koma heill heim úr vinnu, á Íslandi eru það alls ekki sjálfgefin réttindi.

 

Deila