Mikil vonbrigði - Öll félög smábátaútgerðar hafna kjarasamningi
Eins og komið hefur fram hér á vefnum var þ. 21. des. s.l. undirritaður kjarasamningur milli Sjómannasambands Íslands og Landssambands smábátaeigenda. Vonir voru bundnar við að með því væri stigið skref í átt til þess að starfsfólk smábátaútgerða njóti sömu félagslegra réttinda og annað launafólk á landinu, en sem kunnugt er hefur smábátaútgerð verið eina atvinnugreinin á Íslandi sem ekki hefur gert kjarasamning við sitt fólk.
Fimm félög innan SSÍ samþykktu samninginn í atkvæðagreiðslu, þ.á.m. Verk-Vest, ellefu félög samþykktu hann með því að taka hann ekki til afgreiðslu, en fjögur félög felldu hann.
Skemmst er frá því að segja, að afgreiðsla samningsins hjá Landssambandi smábátaeigenda veldur gríðarlegum vonbrigðum. Hann hefur verið felldur hjá öllum aðildarfélögum sambandsins sem fréttir hafa borist af. Á félagssvæði Verk-Vest hafa félögin á norðanverðum Vestfjörðum og Ströndum fellt hann, en ekki hafa borist fréttir af af afgreiðslu hans á suðursvæðinu.
Starfsmenn smábátaútgerða verða því að una því enn um sinn að starfa hjá einu atvinnugreininni á Íslandi sem ekki treystir sér til að tryggja sínu starfsfólki þau mannréttindi og það öryggi sem kjarasamningur veitir.
Ekki er þó svo að skilja að starfsmenn smábátaútgerða séu með öllu réttindalausir. Þeir njóta auðvitað lágmarksréttinda skv. lögum, t.d. varðandi veikindarétt og uppsagnarfrest.
Þá minnum við á samning Verk-Vest við einstakar útgerðir um kjör sjómanna og beitingamanna á smábátum, sem því miður aðeins sárafáir útgerðarmenn hafa undirritað. Launaliðir hans hækkuðu um 3,5 af hundraði 1. jan. s.l.
Bágt er að segja hvað valdið hefur því að samningurinn fékk svo slæmar viðtökur. Trúlega hefur nokkuð skort á kynningu og málefnalega umfjöllun af hálfu beggja aðila. Líklegt er að okkar megin hafi það gleymst að kjarasamningar kveða alltaf á um lágmarkskjör. Það er hefð við gerð kjarasamninga að þeir sem hafa betri kjör en samningur segir til um halda þeim nema annað sé sérstaklega tekið fram. Þeir sem hafa nú hærri skiptahlut eða önnur fríðindi en tilgreint er í samningnum hefðu því haft þau áfram.
Erfiðara er að átta sig á hvað hefur gerst hjá útgerðinni. Ólíklegt verður að teljast að forsvarsmenn LS hafi ofmetið bolmagn greinarinnar til mikilla muna, eða ekki haft samband við baklandið.
Þarna hlýtur að vera um ónóga kynningu og misskilning að ræða, því auðvitað dettur engum heilvita manni í hug á því herrans ári 2008 að heil atvinnugrein á Íslandi geti til langframa verið stikkfrí hvað varðar félagsleg réttindi starfsmanna.
Smábátaútgerð er okkur Vestfirðingum afar mikilvæg. Við skulum ekki gleyma því að réttindaleysi starfsfólks hennar er ekki aðeins óvirðing við grundvallarmannréttindi, heldur einnig vatn á myllu þeirra sem hafa haldið því fram að greinin sé ekki á vetur setjandi og vilja færa frá henni veiðiheimildir.