Translate to

Fréttir

Mikill verðmunur á jólamat

Verðlagseftirlit ASÍ gerði verðkönnun á jólamatvöru í átta matvöruverslunum á höfuðborgarsvæðinu sl. mánudag. Kannað var verð á 108 algengum vörum sem eru í boði fyrir jólahátíðina. Bónus Korputorgi var með lægsta verðið í 50 tilvikum af 108, Krónan Lindum í 38 tilvikum og Víðir Skeifunni í 12 tilvikum. Samkaup-Úrval Hafnarfirði var með hæsta verðið í 56 tilvikum af 108, Hagkaup Holtagörðum í 22 tilvikum, Iceland Vesturbergi 17 og Fjarðarkaup í 11 tilvikum. Oftast var á milli 25-50% verðmunur á hæsta og lægsta verði en sjá mátti allt að 147% verðmun.

Mestur verðmunur reyndist vera á ódýrustu fersku jarðaberjunum sem fáanleg voru, en þau voru dýrust á 3.740 kr./kg. hjá Krónunni en ódýrust á 1.512 kr./kg. hjá Fjarðarkaupum, verðmunurinn er 2.228 kr. eða 147%. Minnstur verðmunur að þessu sinni reyndist vera á Jólasíldinni frá ORA sem var dýrust á 829 kr. hjá Hagkaupum og Iceland en ódýrust á 773 kr. hjá Bónus og Krónunni sem er 7% verðmunur.

Mikill munur á vöruúrvali verslana

Engin verslun sem skoðuð var átti til allar vörurnar sem skoðaðar voru í mælingunni. Vöruúrval reyndist mest í verslun Krónunnar þar sem fáanlegar voru 96 vörur af 108, Fjarðarkaup átti til 94, Hagkaup 93 og Nettó Mjódd átti 91 vöru. Minnsta úrvalið var hjá hjá Víði en þar voru aðeins til 67 vörur af 108, Bónus átti 78 og Samkaup-Úrval átti 80.

Af þeim vörum sem til voru í öllum verslunum má byrja á því að nefna að mikill verðmunur var á KEA hamborgarhrygg m/beini sem var ódýrastur á 1.485 kr./kg. hjá Víði en dýrastur á 1.898 kr. hjá Samkaupum-Úrvali sem er 28% verðmunur. Ódýrasti frosni kalkúnninn var ódýrastur á 1.185 kr./kg. hjá Víði en dýrastur á 1.699 kr./kg. hjá Iceland sem er 43% verðmunur. Jólabríe frá MS var ódýrastur á 632 kr. hjá Bónus en dýrastur á 849 kr. hjá Samkaupum-Úrvali sem er 34% verðmunur. Laufabrauðið frá Ömmubakstri var ódýrast á 1.785 kr. í Bónus en dýrast á 2.298 kr. hjá Samkaupum-Úrvali sem er 29% verðmunur. Konfektkassinn frá Nóa 135 gr. var ódýrastur á 935 kr. hjá Bónus en dýrastur á 1.298 kr. hjá Samkaupum-Úrvali sem er 39% verðmunur. Að lokum má nefna að Egils malt og appelsín ½ l. var ódýrast á 138 kr. hjá Víði en dýrast á 209 kr. hjá Samkaupum-Úrvali sem er 51% verðmunur. 

Nánar má lesa um könnunina á ASI.IS

Deila