Translate to

Fréttir

Mikill verðmunur á umfelgun og smurþjónustu

Í könnun sem verðlagseftirlit ASÍ gerði á kostnaði við umfelgun og smurþjónustu kemur fram mikill verðmunur á þeirri þjónustu, verðmunurinn er sýnu meiri í smurþjónustu en umfelgun. ASÍ vann könnunina í samstarfi við Framsýn, Ölduna stéttarfélag, Einingu-Iðju og Verkalýðsfélag Vestfirðinga hjá 10 þjónustuaðilum víðs vegar um Norðurland og á Ísafirði mánudaginn 12. október sl. Munur á hæsta og lægsta verði á smurþjónustu fyrir minni meðalbíl (t.d. Ford Focus), reyndist tæplega 2.500 kr. eða 101% verðmunur.  Munur á hæsta og lægsta verði þjónustu fyrir jeppa reyndist vera rúmlega 4.100 kr, sem er 117% verðmunur.

Kannað var verð á smurþjónustu fyrir fimm stærðir bíla, smábíl (t.d. Toyota Yaris), minni meðalbíl (t.d. Ford Focus), meðalbíl (t.d. Subaru Legacy), jeppling (t.d. Suzuki Vitara) og jeppa (Mitsubishi Pajero).

Lægsta verð á smurningu án efna, fyrir smábíla var 2.451 kr. hjá KS bílaverkstæði á Sauðárkróki en hæsta verð var 4.914 kr. hjá Búbót á Sauðárkróki. 


Smurþjónustan fyrir jepplingi var ódýrust 3.150 kr. hjá KS bílaverkstæði á Sauðárkróki, en dýrust 5.584 kr. hjá Bílabót Sauðárkróki.


Smurþjónusta fyrir jeppa var ódýrust 3.551 kr. hjá KS bílaverkstæði á Sauðárkróki en dýrust 7.707 kr. hjá Bifreiðaverkstæði SB á Ísafirði.


Verðkönnunin nær einungis til þjónustu smurstöðvanna og eru engin efni innifalin í verðinu. Innifalið í uppgefnu verði er að lágmarki eftirtaldir liðir: Skipti á olíu á vél, skipti á olíusíu og eyðingargjald olíusíu, smurning í drifsköft og lamir, athugun á loftsíu, olíu á gírkassa/ sjálfskiptingu, bremsuvökva og frostlegi.

Hér er aðeins um beinan verðsamanburð á þjónustu að ræða en ekki var lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila.

Nánari upplýsingar um kannanirnar má sjá á síðu ASÍ.

Deila