Minnt á lágmarkshækkun 1. júní - reiknivél á vefnum
1. júní 2010 hækkuðu kauptaxtar á almenna vinnumarkaðinum um kr. 6.500 á mánuði. Bónus og premía hækkuðu þá um 2,5% og sömuleiðis ákvæðisvinna. Lágmarkshækkun 1. júní var 2,5%, þannig að þeir sem voru á hærri launum en taxtar sögðu til um, áttu að hækka um a.m.k. þá prósentutölu. Alltaf er viss hætta á að slíkar lágmarkshækkanir skili sér ekki, vegna gleymsku eða af öðrum ástæðum og því er minnt á þetta nú.
Félagsmenn verða sjálfir að fylgjast með hvort atvinnurekandinn stendur skil á 2,5% hækkuninni eins og vera ber, en til að gera þeim sem eiga rétt á slíkri lágmarkshækkun hægara um vik höfum við sett á vefinn reiknivél þar sem hægt er að ganga úr skugga um hvort umsamin hækkun hefur skilað sér. Telji menn að svo sé ekki er þeim bent á að hafa samband við félagið í síma 456 3190.
Reiknivél vegna hækkunar 1. júní 2010.
1. nóvember 2009 tók einnig 3,5% launaþróunartrygging gildi hjá þeim sem enga hækkun höfðu fengið frá 1. janúar 2009 og voru ekki á kauptaxta. Ef um hækkanir á launum var að ræða á þessu tímabili þá drógust þær frá 3,5%.
Reiknivél vegna hækkunar 1. nóv. 2009.
Að lokum er rétt að minna á að frá 1. júní 2010 eru lágmarkslaun fyrir fulla dagvinnu á almenna markaðinum og hjá ríkinu kr. 165.000, en hjá sveitarfélögunum kr. 170.000.