Niðurskurður bitnar á þeim lægstlaunuðu
								
								Nái hagræðingarhugmyndir bæjaryfirvalda í Ísafjarðarbæ í málefnum skólaliða hjá Grunnskóla Ísafjarðar fram að ganga munu tekjur skólaliða skerðast um 20%. Þessu hafa skólaliðar ásamt stéttarfélögunum Verk Vest og Fos Vest, mótmælt harðlega og krafist þess að ákvörðunin verði dregin til baka. Skólaliðar hafa sent bæjaryfirvöldum bréf þar sem skorað er á að fallið verði frá þessari ákvörðun. Verk Vest og Fos Vest hafa einnig sent bæjaryfirvöldum bréf þar sem félögin harma að þegar farið er í endurskipulagningu og sparnað þá skuli
 fyrst og fremst vera horft til láglaunastarfa við ákvarðanatöku.  Þá hafa félögin einnig brýnt fyrir bæjaryfirvöldum að verði ákvörðunin ekki tekin til alvarlegrar 
endurskoðunar sjái félögin sér ekki annað fært en að hvetja félagsmenn 
sína, sem starfa sem skólaliðar og uppfylla umsaminn vinnutíma, að 
yfirgefa vinnustað þó verkefnum dagsins sé ólokið. Sé unnið umfram 
umsaminn vinnutíma verði það greitt með yfirvinnu.  Félögin vilja líka minna á að sveitarfélagið fær útsvarstekjur af þessum 
yfirvinnustundum sem fyrirhugað er að skera af skólaliðunum og er þá vafasamt að reikna þessa hagræðingu til tekna hjá bæjarfélaginu. Einnig er fjallað um þessi mál á www.bb.is.