Translate to

Fréttir

Níu nemendur útskrifaðir úr Grunnmenntaskólanum á Þingeyri

Hressar og ánægðar við útskrift - og tilbúnar að halda áfram.
Ljósm. Fræðslumiðstöð Vestfjarða. Hressar og ánægðar við útskrift - og tilbúnar að halda áfram. Ljósm. Fræðslumiðstöð Vestfjarða.
Nemendur og nokkrir kennarar.
Ljósm. Fræðslumiðstöð Vestfjarða. Nemendur og nokkrir kennarar. Ljósm. Fræðslumiðstöð Vestfjarða.

Grunnmenntaskólanum á Þingeyri var slitið þ. 6. des. síðastliðinn og útskrifuðust 9 nemendur.

Grunnmenntaskólinn er 300 kennslustunda nám, kennt samkvæmt námskrá Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins og ætlað fólki á vinnumarkaði sem vill efla sig í almennum greinum. Meta má námið til allt að 24 eininga í framhaldsskólum.

 

Rekstur Grunnmenntaskólans á Þingeyri var samstarfsverkefni Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða, Verkalýðsfélags Vestfirðinga og Vinnumálastofnunar. Verkefnið var sett af stað til að bregðast við yfirvofandi uppsögnum starfsfólks í fiskverkuninni Vísi á Þingeyri.

Veittur var 3,5 milljón króna styrkur kennslunnar úr sjóði til mótvægisaðgerða vegna tímabundins aflasamdráttar.

 

Kennsla við Grunnmenntaskólann hófst 26. mars 2008 og henni lauk 6. desember 2008. Hlé var gert á kennslu frá 31. maí til 1. september.

 

Fjórtán þátttakendur hófu námið og 8 luku því að fullu. Að auki luku tveir meira en helmingi námsins, en 4 þátttakendur hófu ekki námið að loknu sumarleyfi, en 3 þeirra voru fluttir frá staðnum þegar nám hófst á ný. Nokkrir nemendur komu í þeirra stað, einkum í íslenskunám, en teljast aðeins hafa lokið námskeiði í viðkomandi grein skv. þeim kennslustundum sem þeir sóttu.

 

Nám við Grunnmenntaskólann samanstendur af 13 námsþáttum sem eru:  kynning og hópefli, sjálfsstyrking og samskipti, íslenska, enska, stærðfræði,  tölvu- og upplýsingatækni, námstækni, framsögn og ræðumennska, þjónusta, verkefnavinna, náms- og starfsráðgjöf, færnimappa og  mat á námi og skólastarfi. Þar sem íslenskan var kennd í tveimur hópum, annar fyrir íslendinga og hinn fyrir útlendinga, var í raun um 14 námsþætti að ræða. Alls komu 13 einstaklingar að kennslunni.

 

Við lok Grunnmenntaskólans var lagt fyrir námskeiðsmat. Þátttakendur létu þar í ljós mikla ánægju með námið og meirihluti þeirra óskaði eftir framhaldi. Til að verða við þeim óskum er stefnt að því að kenna í vor á Þingeyri námskrá Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins sem kallast Nám og þjálfun í almennum bóklegum greinum og er 300 kennslustundir. Í því sambandi má minna á að til viðbótar þeim 9 sem nú útskrifuðust höfðu 5 Þingeyringar áður lokið námi í Grunnmenntaskólanum á Ísafirði, svo ekki ætti að skorta þátttakendur.

Deila