Translate to

Fréttir

Ný könnun ASÍ - 53% ungs fólks með yfirdrátt í bönkum

Ungt fólk verður í brennidepli á ársfundi ASÍ sem hefst fimmtudagsmorguninn 23. október.

Yfirskrift ársfundarins er Áfram Ísland - fyrir ungt fólk og framtíðina. Þar sem augum er sérstaklega beint að ungu fólki á þessum fundi réðst Alþýðusambandið í gerð skoðanakönnunar meðal ungs fólk í sumar til að kanna afstöðu þess til stéttarfélaga og verkalýðsbaráttu. Þar kom margt jákvætt fram en afstaða þessa hóps er heilt yfir mjög jákvæð í garð verkalýðshreyfingarinnar. Fram kemur í könnuninni að ríflega 84% ungs fólks er í stéttarfélögum og væri það hlutfall mun hærra ef þeir væru bara taldir sem eru virkir á vinnumarkaði. Nemar, heimavinnandi og bótaþegar draga þessa tölu niður. Þá telja 96,5% ungs fólks að stéttarfélög séu nauðsynleg til að gæta hagsmuna launafólks.

Auk spurninga um stéttarfélög og verkalýðsbaráttu voru settar inn nokkrar aðrar spurningar, m.a. var spurt út í notkun á yfirdrætti en vextir á slíkum reikningum eru nú í kringum 22%. Þar vekur mesta athygli að 52,9% þeirra sem svara segjast vera með yfirdrátt og eru fleiri karlar í þeim hópi en konur. Notkun á yfirdrætti er tíðari hjá fólki á höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni og notkunin eykst með hækkandi aldri. Þá vekur athygli að 12% þeirra sem eru með yfirdrátt á annað borð eru með heimild upp á 900 þúsund eða meira á slíkum reikningi. Tæplega 5% eru að nota milljón eða meira í yfirdrátt. Í þessu samhengi er vert að benda á að 2/3 þeirra sem að tóku þátt í könnuninni eru með mánaðarlaun undir 300 þúsundum.

Niðurstöðurnar má að öðru leyti sjá hér.

Deila