Translate to

Fréttir

Ný spá hagdeildar ASÍ staðfestir miklar þrengingar framundan

Samkvæmt því sem kemur fram í spá hagdeildarinnar þá munum við sigla inn í tvö mjög erfið ár þar sem landsframleiðsla mun dragast mikið saman og mikið atvinnuleysi mun vera viðvarandi. Ekki fari að draga úr atvinnuleysinu fyrr en kemur fram á árið 2011. Eins og við velflest höfum fengið að kynnast þá hafa heimilin ekki farið varhluta af þeim þrengingum sem yfir okkur ganga og eins og kemur fram í spánni þá mun staða heimilanna áfram verða þröng þar sem ráðstöfunartekjur lækka og atvinnuástandið verður áfram slæmt.

Útlit er fyrir að atvinnuleysi verði 9-10% næstu misserin þótt heldur dragi úr þegar líða tekur á spátímabilið. Háir vextir, veik króna, takmarkað aðgengi að lánsfé og minnkandi eftirspurn gerir rekstrarskilyrði fyrirtækja erfið. Þungar vaxtagreiðslur, vaxandi útgjöld vegna atvinnuleysis og samdráttur í tekjum valda verulegum hallarekstri hjá hinu opinbera á næstu árum. Til þess að ná sem fyrst jöfnuði á ný í rekstri ríkis og sveitarfélaga er óumflýjanlegt að auka skatttekjur og draga umtalsvert úr útgjöldum hins opinbera. Verðbólga hjaðnar og verður komin í 4% í árslok og gengi krónunnar verður stöðugra en helst áfram hátt.

Hægt er að nálgast hagspá ASÍ hér.
Deila