Eftir langa og erfiða samningalotu hefur loks verið undirritaður nýr kjarasamningur SGS við sveitafélögin. Gildistími nýja samningsins er frá 1. maí 2011 og til 30. júní 2014. Verði samningurinn samþykktur ber að leiðrétta laun frá 1. júní. Megin atriðið í þessum samningi er ný launatafla þar sem gömlu lífaldursþrepin hafa verið felld út. Þetta þýðir að allir sem voru fyrir neðan efsta aldursþrepið færast í það. Þetta er að færa þeim sem eru yngri umtalsverðar hækkanir við fyrstu launabreytinguna. Þá hafa persónuálögin einnig verið felld inn í samninginn og nýr kafli um réttindi og skyldur einnig verið skrifaður inn í samninginn. Lámarkslaun fyrir fullt starf ( 40 tíma á viku ) fyrir 18 ára og eldri verða frá 1. júní 2011 kr. 196.708 og verða frá fyrsta mars 2014 kr. 219.799. Eingreiðslur á samningstímanum eru kr. 50.000 til allra sem eru við störf í maí, og miðast greiðslan við fullt starf í mars - maí. Þá verður greidd eingreiðsla kr. 25.000 þann 1. febrúar 2012 og miðast sú greiðsla einnig við fullt starf. Í báðum tilfellum fá starfsmenn í hlutastörfum greitt hlutfallslega. Verk Vest er eitt þeirra stéttarfélaga sem er aðili að samningnum og munu kynningargögn ásamt kjörseðli verða send út til félagsmanna sem starfa hjá sveitarfélögum á Vestfjörðum allra næstu daga. Atkvæðagreiðslu þarf að vera lokið fyrir kl.16.00 þann 18. júlí og þurfa atkvæðaseðlar að hafa borist fyr þann tíma. Nánar er sagt frá þessu á www.sgs.is en þar má einnig finna kynningarbækling og samninginn í heild sinni.

Landssambönd

Verkalýðsfélag Vestfirðinga er aðili að eftirtöldum landssamböndum innan ASÍ.