Nýjar reglugerðir um virkar vinnumarkaðsaðgerðir
Eins og kunnugt er náði góðæri og velmegun sem ríkti á Íslandi nokkur undanfarin ár ekki til Vestfjarða. Afleiðingar efnahagshrunsins koma því seinna og vonandi í minni mæli niður á Vestfirðingum en íbúum þenslusvæðanna. Reyndar má segja að við höfum tekið út hrunið fyrirfram með fólksfækkun og neikvæðum hagvexti undanfarin ár. Ekki er þó ástæða til að ætla að við sleppum alveg, t.d. eru í dag 82 einstaklingar á atvinnuleysisskrá á Vestfjörðum, en voru 24 í janúar í fyrra. Þetta eru að vísu ekki háar tölur miðað við ótíðindi frá suðvesturhorninu, en gefa þó vísbendingu um að atvinnuleysi fari vaxandi hjá okkur.
Nú hefur félags- og tryggingamálaráðherra sett reglugerð um fjölbreytt vinnumarkaðsúrræði sem atvinnuleitendur geta tekið þátt í samhliða því að fá greiddar atvinnuleysisbætur, svo sem þátttöku í sérstökum átaksverkefnum, frumkvöðlastörfum og sjálfboðaliðastörfum. Enn fremur fjallar reglugerðin um styrki til náms og námskeiða, búferlastyrki, atvinnutengda endurhæfingu og fleira. Einnig hefur verið sett reglugerð um nám og námskeið sem eru viðurkennd sem vinnumarkaðsúrræði. Reglugerðirnar eru settar með stoð í lögum um atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir og unnar í nánu samstarfi við ASÍ og aðra aðila vinnumarkaðarins.
Meginmarkmið vinnumarkaðsúrræða eins og þeirra sem kveðið er á um í reglugerðunum er að sporna gegn atvinnuleysi, auðvelda fólki í atvinnuleit að halda virkni sinni og tengslum við vinnumarkaðinn og skapa fólki leiðir til að bæta möguleika sína til atvinnuþátttöku á nýjan leik.
Starfsþjálfun, reynsluráðning, átaksverkefni og frumkvöðlastörf
Í nýrri reglugerð um þátttöku atvinnuleitenda sem tryggðir eru innan atvinnuleysistryggingakerfisins í vinnumarkaðsaðgerðum og um búferlastyrki eru nýmæli en einnig er kveðið á um úrræði sem eru þekkt hér á landi og hafa áður verið nýtt í einhverjum mæli.
Nýmæli er að Vinnumálastofnun má semja beint við atvinnuleitendur um að þeir vinni að þróun eigin viðskiptahugmyndar í tiltekinn tíma án þess að atvinnuleysisbætur skerðist. Annað nýmæli er réttur fólks sem fær greiddar atvinnuleysisbætur til þess að taka þátt í sjálfboðaliðastarfi samhliða virkri atvinnuleit. Gert er ráð fyrir að samningur sé gerður um slík störf milli Vinnumálastofnunar og viðkomandi félagasamtaka sem ber að slysatryggja sjálfboðaliðann. Litið er á sjálfboðaliðastörf sem virkt vinnumarkaðsúrræði þannig að frjáls félagasamtök geti boðið atvinnuleitendum þátttöku.
Búferlastyrkir og náms og námskeiðsstyrkir
Þá hefur ráðherra sett nýja reglugerð um nám og námskeið sem eru viðurkennd vinnumarkaðsúrræði þar sem tilgreint er hvaða nám og námskeið fólk án atvinnu getur stundað og fengið samhliða greiddar atvinnuleysisbætur samkvæmt áunnum réttindum sínum.
Verk-Vest hvetur alla félagsmenn til að huga sérstaklega að því að styrkja stöðu sína á vinnumarkaðnum með námi. Í því sambandi bendum við á fréttir hér á síðunni um námskeið fyrir smiði og kynningarfund um raunfærnimat.
Við bendum líka á að Fræðslumiðstöð Vestfjarða stendur fyrir fjölbreyttum námskeiðum þar sem flestir ættu að geta fundið eitthvað áhugavert. Námsstyrkir fást hjá starfsmenntasjóðum sem félagið á aðild að.