Translate to

Fréttir

Nýr forseti ASÍ lagði áherslu á samstöðu verkalýðshreyfingarinnar þegar hann sleit ársfundinum

Gylfi, Grétar og Halldór á ársfundi ASÍ 2007 Gylfi, Grétar og Halldór á ársfundi ASÍ 2007

Gylfi Arnbjörnsson nýkjörin forseti Alþýðusambandsins sagðist árétta fyrirheit sín um að efla samstöðu og samheldni innan verkalýðshreyfingarinnar, þegar hann sleit 8. ársfundi ASÍ síðdegis. Hann sagðist hafa staðfasta trú á því að með samstöðunni muni verkalýðshreyfingunn takast að vinna sig í gegnum þrengingarnar, fyrir ungt fólk og framtíðina. Í lok fundarins var Grétar Þorsteinsson fráfarandi forseti ASÍ var ákaft hylltur fyrir frábær störf í þágu verkalýðshreyfingarinnar.


Slit 8. ársfundar Alþýðusambands Íslands

"Ágætu félagar, ég vil byrja á því að þakka ykkur öllum góðan og árangursríkan ársfund, sérstaklega þá eindrægni og samstöðu sem hér hefur ríkt.

Hér höfum við fengið mikilvægt vegna nesti í glímunni við þau verkefni sem við stöndum frammi fyrir.

Við höfum sett skipulagsmálin í ákveðin farveg innan okkar hreyfingar.

Við höfum mótað okkur skýrari stefnu og sýn í málefnum ungs fólks. Þrátt fyrir að þessi málaflokkur, sem átti að vera þungamiðja þessa ársfundar, hafi fallið í skuggann af yfirstandandi efnahagsþrengingum höfum við mótað okkur mikilvæga stefnu í þessu mikilvæga málefni.

Hér á fundinum höfum við sett okkur skýra áætlun um hvernig hægt verður að komast í gegnum þær þrengingar sem þjóðin er lent í. Hér er um mikilvægt veganesti að ræða sem hreyfingin öll hefur fengið og verður það verkefni formanna landssambandanna og stærstu félaganna að hrinda í framkvæmd í nánu samráði við baklandið.

Ég vil þakka stjórnendum fundarins fyrir þeirra framlag til þessa velheppnaða ársfundar. Þrátt fyrir mikla tímaþröng hefur þeim tekist að afgreiða öll mál í mikilli sátt við fundinn. Hafið þið þökk okkar allra fyrir.

Ég vil einnig biðja starfsmenn fundarins að koma hingað fyrir framan púltið þannig að ársfundafulltrúar getið séð þennan vaska hóp sem hefur verið boðinn og búinn að sinna öllum þeim fjölda verka sem svona glæsilegum ársfundi fylgir. Hafið þið einnig þökk okkar allra fyrir.

Ég vil að lokum þakka ykkur enn og aftur fyrir það mikla traust sem þið hafið sýnt mér og vil árétta fyrirheit mín um að leggja mig allan fram til að efla samstöðu og samheldni innan okkar raða. Ég hef staðfasta trú á því að með samstöðunni mun okkur takast að vinna okkur í gegnum þessar þrengingar, fyrir ungt fólk og framtíðina. Okkar fólk treystir á okkur öll og ég er þess fullviss að við munum rísa undir því trausti.

Ég segi þessum 8. Ársfundi Alþýðusambands Íslands slitið, þakka ykkur öllum ykkar mikilvæga framlag. Megið þið eiga örugga heimkomu."

Af vef ASÍ.

Deila