Orlofsbyggðin Flókalundi - Patreksfjörður
Tíðindamaður vefsins var á ferð í orlofsbyggðinni í Flókalundi um síðustu helgi. Þar ræður ríkjum Þorsteinn Guðbergsson umsjónarmaður, sem hefur þjónustað byggðina og gesti hennar af alkunnri lipurð og samviskusemi síðustu 13 sumur. Í vor var ráðist í að girða kringum byggðina, en ágangur sauðfjár hefur verið mörgum til ama undanfarin sumur.
Að sögn Þorsteins hefur girðingin komið að tilætluðum notum, rollurnar standa fyrir utan og horfa löngunaraugum inn. Ein kind hefur þó komist inn ásamt lambi - og var rekin öfug út, en sem kunnugt er hafa alltaf verið til rollur sem engin girðing heldur. Fróðlegt verður að sjá muninn á gróðri innan girðingar og utan þegar fram líða stundir.
Orlofsbyggðin hefur verið vel sótt og gestir ánægðir, enda veðurblíða með eindæmum og ekki spillir umhverfið.
Í bakaleiðinni var m.a. komið við á Patreksfirði. Þar hefur félagsmaður Verk-Vest, Mary A. E. Jordaan ásamt manni sínum Paul, sett á stofn fyrirtæki og framleiðir þurrkað kjöt. Mary, sem er frá Suður-Afríku, meiddist fyrir 2 - 3 árum og sá þá fram á skerta vinnugetu í fiskvinnslunni. Henni datt þá í hug að fara að framleiða þurrkað kjöt, biltong, eins og gert er í Suður-Afríku og hófst strax handa við að koma upp aðstöðu og afla sér þekkingar á íslensku viðskiptaumhverfi og nauðsynlegra leyfa.
Mary segir að framleiðslan hafi gengið vel, en hægt gengur að vinna markað fyrir vöruna, sem nefnist Vestfjarðakjöt. Kjötið má bæði fá í stykkjum og smábitum, snakk. Tíðindamaður getur vottað að þurrkaða kjötið hennar Mary er mesta lostæti og áreiðanlega miklu hollara en kartöfluflögur og fleira ómeti sem Íslendingar éta í stórum stíl.
Mary og Paul eru bæði starfsmenn Odda.