Translate to

Fréttir

Réttarbót fyrir fiskvinnslufólk

Þátttakendur í fiskvinnslunámskeiði hjá Verk-Vest 2005. Lögin um greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs til fiskvinnslufyrirtækja gera ráð fyrir að tíminn sé nýttur til námskeiðahalds þegar vinnsla stöðvast. Þátttakendur í fiskvinnslunámskeiði hjá Verk-Vest 2005. Lögin um greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs til fiskvinnslufyrirtækja gera ráð fyrir að tíminn sé nýttur til námskeiðahalds þegar vinnsla stöðvast.

Alþingi hefur samþykkt breytingar á lögum nr. 51 frá 1995 um greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks. Breytingarnar hafa í för með sér þá mikilvægu bót, að fiskvinnslufólk sem verið hefur á dagvinnutryggingu í vinnslustöðvun getur nú sótt um mismuninn á dagvinnu og tekjutengdum atvinnuleysisbótum sem það hefði átt rétt á ef það hefði verið skráð atvinnulaust. Atvinnuleysistryggingasjóður greiðir þá mismuninn.

Eins og kunnugt er taka tekjutengdar atvinnuleysisbætur við þegar viðkomandi hefur verið á grunnbótum 10 fyrstu atvinnuleysisdagana. Þær nema 70% af meðaltekjum 6 mánaða tímabils, þó að hámarki 180.000 kr. á mánuði.
Þarna getur því verið um nokkrar upphæðir að ræða og þetta er veruleg réttarbót, sem veitti sannarlega ekki af, því tekju- og starfsöryggi fiskvinnslufólks hefur lengst af verið í hrópandi ósamræmi við þá miklu þýðingu sem störf þess hafa fyrir þjóðarhag.

Önnur breyting á lögunum, áður boðuð, er að dögum sem Atvinnuleysistryggingasjóður greiðir fyrirtækjum upp í dagvinnutryggingu verkafólks í vinnslustöðvun er fjölgað úr 45 í 60 á ári og nú má greiða fyrir 30 daga í einni vinnslustöðvun í stað 20 daga áður. Þessar lagabreytingar eru liður í aðgerðum ríkisstjórnarinnar til að styrkja atvinnulíf í sjávarbyggðum sem eiga í erfiðleikum vegna kvótaniðurskurðar. Þær eru til bráðabirgða og falla úr gildi 31. desember 2009.

Deila