Translate to

Fréttir

Ríki og sveitarfélög örvi vinnumarkaðinn

 

Ályktun framkvæmdastjórnar SGS, frá 26. ágúst 2008.

„Sá alvarlegi vandi sem nú steðjar að íslensku atvinnulífi er afleiðing ofþenslu liðinna ára og á fyrst og fremst rætur í mistökum í efnahagsstjórninni. Fjöldauppsagnir, greiðsluerfiðleikar og gjaldþrot einstaklinga og fyrirtækja blasa við. Fólkið í landinu finnur fyrir verulegri kjaraskerðingu. Forsendur kjarasamninga eru brostnar.

Verkalýðshreyfingin varaði ítrekað við þeim vanda sem var fyrirsjáanlegur og benti á leiðir til að koma í veg fyrir brotlendingu efnahagslífsins. Gerðir voru hóflegir kjarasamningar og stjórnvöld fengu tækifæri til að tryggja stöðugleika og festu í stjórn peningamála, án árangurs. Hávaxtastefna Seðlabankans virðist ekki skila öðru en enn meiri kjaraskerðingu og verðbólgu svo óviðunnandi er með öllu. Það mun kosta ómældar fórnir fyrir heimilin í landinu ef atvinnulífinu blæðir út á meðan úrbætur eru fastar í pólitísku þrátefli. Grípa verður til viðeigandi ráðstafana strax.

Þörf er á samhentu átaki aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda um endurreisn efnahagskerfisins og stöðugan gjaldmiðil, sem ekki verður leiksoppur fjármálafyrirtækja og spákaupmennsku. Óstöðugur gjaldmiðill er hvorki til þess fallinn að tryggja stöðugleika né getur verið forsenda þjóðarsáttar um slíka endurreisn efnahagslífsins.

Starfsgreinasambandið skorar á ríkistjórn Íslands að snúa vörn í sókn. Leysa verður þráteflið um peningamálstefnuna. Það þarf markvissa stefnumörkun um aðgerðir ríkisins og sveitarfélaga til að örva vinnumarkaðinn og koma í veg fyrir atvinnuleysi, m.a. með mannaflsfrekum verkefnum og framkvæmdum. Það á bæði við um nýframkvæmdir og viðhaldsframkvæmdir opinberra eigna sem setið hafa á hakanum. Á sama hátt þarf ríkisstjórnin að liðka fyrir erlendum fjárfestingum hér á landi og hraða þeim framkvæmdum sem eru í sjónmáli."

Deila